laugardagur, desember 18, 2004

Hurðaskellir

Jóladagatal Hauksins

18. desember

Haukurinn er vægast sagt kátur. Hann er nánast búinn að redda sér fyrir horn hvað jólagjafainnkaup varðar. Vitandi það að verkefnaskrif láta einatt bíða eftir sér, eða innblástur þeirra, þar til eftir hádegi þá dreif Haukurinn sig niður í miðbæ og drap jólagjöf handa Frúnni. Haukurinn minnti á mann þann sem Leoncie söng um forðum "...there is a killer in the park....". Hann skundaði, skeiðaði og skrapaði og gjöfin var í höfn. Haukurinn er sem sagt kátur með sig.

Haukurinn skilur engan veginn fólk sem hefur nennu í það að rölta um bæinn heilu dagana í innkaupaleiðöngrum. Hefur þetta fólk ekkert annað að gera? Haukurinn spyr sig hins sama þegar hann hugsar um alla þá sem mættu honum í gríðarbákninu sem Kringlan er, þegar hann stundaði nám við V.Í. Í hvert sinn sem Haukurinn neyddist til þess að ganga inn í þetta Mammonshof, á hvaða sem var, voru einatt einhverjir að versla. Óskiljanlegt.

Haukurinn hefur talað!

föstudagur, desember 17, 2004

Jóladagatal Hauksins

17. desember

Haukurinn hefur fátt að segja að þessu sinni, þar eð jólahátíðin, verkefnaskrif, jólagjafir og heimferð eiga hug hans allan. Lesendur er bent á það aðeins eru sjö dagar til jóla og þeir því eindregið beðnir að koma síðustu hlutum í verk, því að það vita það allir sem eitthvað vita á annaðborð, að jólin verða eigi haldin ef fólk er ekki búið að öllu - og þá á Haukurinn við ÖLLU.

Haukurinn bíður einnig foreldra kvenna Nýbúans og Bóndans velkomna til merkur Dananna. Megi þau öll eiga gleðileg jól.

Haukurinn hefur talað!
Askasleikir


Posted by Hello

fimmtudagur, desember 16, 2004

Jóladagatal Hauksins

16. desember

Fyrr en dagur fagur rann, freðið nefið dregur hann, undan stórum steini, undan stórum steini. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er ofanritað fyrra erindi vísunnar Krummi svaf í klettagjá. Haukurinn ákvað að hefja sinn pistil í dag á þessum margrómuðu orðum, vegna þess að honum var hreinlega frekar kalt þegar hann vaknaði í morgunsárið. Hann er hreinlega handviss um að Danir viti ekkert um húsbyggingar, því að þó svo að allir gluggar séu fastlokaðir þá er samt ávallt loftstraumur í gegnum íbúð Hauksins - og verandi vetur þá er þessi straumur frekar í kaldari kantinum.
Haukurinn fór í Karate-gráðun seinnipart dags, og gekk vægast sagt agalega. Haukurinn klúðraði á klúður ofan, en náði samt gráðuninni. Haukurinn er þakklátur fyrir góðvild kennara sinna og gjafmildi.
Seinna um kvöldið var hauststarfinu slúttað með ærlegri veislu, pompi og prakti. Karate-karlar og konur einhentust á Konrads Café í miðbæ Álaborgar og gæddu sér á gómsætum veitingunum. Haukurinn fór varlega inn um gleðinnar dyr, þar eð lifur hans er engan veginn í sama keppnisformi og hún var fyrir tæpum tveim mánuðum síðan. Þannig virðist sem heilbrigt líferni hafi komið niður á drykkjuhæfileikum Hauksins - því er nú verr og miður. Haukurinn minnist orða bróður Bóndans "...bjórinn bjargaði mér frá íþróttabölinu..." en harmar að öfugt er fyrir honum sjálfum farið.
Haukurinn biður lesendur að bjóða Pottaskefil/sleiki velkominn til byggða. Hann er annar í röð hinna sleikjandi jólasveina - hinn fyrri kom í gær, Þvörusleikir að nafni og hinn síðar er væntanlegur á morgun.
Haukurinn hefur talað!
Pottaskefill/Pottasleikir


Posted by Hello

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jóladagatal Hauksins

15. desember

Haukurinn las það í morgunblaðinu í dag að æðstu ráðamenn íslenska ríkisins fá heldur betur tíðlegan jólaglaðning. Þannig er að kjaradómur hefur veitt þeim 3% launahækkun frá og með næstu áramótum. Haukurinn var glaður að sjá þessum góðu og gegnu þegnum þjóðfélagsins veitt slík búbót, en er jafnframt efins að bólgnar bankabækur æðstu manna láti mikið á sjá við hækkunina. Þannig fær t.d. hæstvirtur forseti lýðveldisins hækkun upp á 50 þúsund krónur - fer þar með úr litlum 1450 þúsundum í mun jafnari tölu, 1500 þúsund. Hauknum er spurn hvað forseti vor hyggst gera með þennan nýfengna auð sinn, og veltir jafnframt fyrir sér hver raunveruleg aukning launanna er eftir að ríkið hefur sjálft tekið skatt af þessari launahækkun. Haukurinn er sáttur við þá hugmynd að nú geti hr. Ólafur farið oftar á KFC og jafnvel fengið sér stóra sósubikarinn og stærsta kókið sem í boði er. Háttvirtur forsætisráðherra fær minni aukningu, eða sem nemur 26 þúsund krónum - þar með hækka laun hans úr 871 þúsundum í 897 þúsund. Hér hefði Haukurinn ekkert séð að því að rétta forsætisráðherra auka 3 þúsundkall á mánuði - 900 þúsund er miklu flottari tala og þá getur hann keypt sér blandara í Húsasmiðjunni fyrir 2495 kr og átt pening fyrir pylsu og kók á eftir.
Haukurinn óskar þessum heiðursmönnum til hamingju með veitta launahækkun og jafnframt góðra jóla - hann þakkar þeim fyrir veitta þjónustu á árinu og biður þá vel að lifa.
Haukurinn hefur talað!
P.S. Hauknum þótti vænt að sjá að SPRON ákvað að veita um einni milljón króna til Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir jólin - það er víst til fátækt fólk á Íslandi líka.......skrítið.....
Þvörusleikir


Posted by Hello

þriðjudagur, desember 14, 2004

Stúfur


Posted by Hello
Jóladagatal Hauksins

14. desember

Dagurinn tók kaldur á móti Hauknum þegar hann hélt af stað um áttaleytið í morgun, og enn og aftur var skórinn tómur. Þannig er að Haukurinn átti að mæta í morgunsárið til nokkurs sem danirnir kalla statussteminar. Þetta seminar er þess eðlis að hóparnir setja saman einskonar kynningu fyrir tvo námsleiðbeinanda og annan hóp, til þess að kynna hversu langt þeir eru komnir með verkefni sín. Síðan tekur við látlaus orrahríð, þar sem allir keppast við að koma með gagnrýni og hópsmeðlimirnir reyna að taka því uppbyggilega. Í morgun vantaði einn úr röðum Hauks, sökum veikinda, og eigi var það hin ólétta mær. Nei, það var jólasveinn hópsins frá Randers. Hópurinn er eigi sáttur, vægast sagt. En áfram kristmenn krossmenn, ekki gráta Björn bónda heldur safna liði og skunda á Þingvöll og treysta vor heit. Eða eitthvað í þá áttina.
Haukinn er farið að lengja eftir hinni umvefjandi sælu hinna fjarlægu íslensku stranda. Nú er svo komið að minna en vika er til brottfarar og eigi hægt að segja annað en að örlítill spenningur sé farin að gera vart við sig. Þó svo að hann hlakki eigi til sjálfs ferðalagsins, sem tekur þó nokkurn tíma, þá verður hann að leggja það á sig, því að ólíkt Múhameð gamla þá er auðveldara fyrir Haukinn að fara til fjallsins en öfugt.
Haukurinn biður einnig velkominn hinn smáa en knáa pönnusleiki Stúf velkominn til íslenskra byggða. Haukurinn fer þess einnig á leit við lesendur að þeir láti vera að stunda dvergakast þar til næsti jólasveinninn kemur til byggða.
Haukurinn hefur talað!

mánudagur, desember 13, 2004

Giljagaur


Posted by Hello
Jóladagatal Hauksins

13. desember

Hauknum er farið að líða eins og Glám forðum í bréfaskriftum hans við Jóla. Dagur tvö, punktur, Haukurinn vaknaði enn og aftur við tóman skó og er farinn að lengja eftir mandarínu eða spilastokk. Hann er eigi að biðja um allan heiminn - elsku mamma - aðeins örlítinn glaðning, rétt til þess að stytta daginn aðeins.
Svo virðist sem að jólin færi öðrum litla glaðninga, og Haukurinn vill aðeins fá sinn skerf af kökunni. Honum finnst krakkar nú til dags fá alltof mikið af athygli frá jólasveinsyfirvöldum og að kominn sé tími til að styrkja velunnara sveinanna á öllum aldri.
Annars er Haukurinn góður.
Haukurinn hefur talað!
P.S. Lesendur eru beðnir að taka vel á móti forvera mjaltavélanna, Giljagaur, sem kemur í dag. Lesendur er vinsamlegast beðnir að slökkva á öryggiskerfum og múlbinda heimilisdýrin.

sunnudagur, desember 12, 2004

Stekkjastaur


Posted by Hello
Jóladagatal Hauksins

12. desember

Haukurinn hefur komist að markverðum hlut. Svo virðist sem að hinir íslensku jólasveinar haldi ekki áfram að gleðja mann með góðgæti í skóinn þegar a) maður eldist og b) býr erlendis. Haukurinn er vægast sagt ekki sáttur með þessa þróun. Hingað til hefur hann nokkuð reglulega getað treyst á íslensku hrekkjalómana og tuttugustu-aldar góðvild þeirra. Það lítur allt út fyrir það að þeir falli aftur í gamla farið þegar komið er út fyrir landsteinana, verði aftur þjófóttir og hrekkjóttir sem á árum áður. Haukurinn treysti á það að þeir hefðu endanlega tekið sér rauðleitann jólasvein KókaKóla keðjunnar sér til fyrirmyndar og látið að fullu af fyrri hegðun. Svo virðist sem kók gefi eigi alltaf tóninn.
Meðan hann man þá vill Haukurinn bjóða hinn annálaða, ærsjúgandi ærslabelg Stekkjastaur velkominn til byggða, þó að hann virðist aðeins vilja halda sig við íslenskar byggðir.
Haukurinn hefur talað!