mánudagur, júní 20, 2005

We are the knights who say "ni"...!

Haukurinn er búinn að vera einum of upptekinn við það að sóla sig í þeirri bongóblíðu sem Álaborg hefur notið síðustu dægur til þess að hafa nennu í það að hanga fyrir framan tölvuskjá. Húðliturinn er aukinheldur orðinn eitthvað þannig að Haukurinn er mitt á milli þess að líkjast velsoðnum humarhala eða fölleitum albinóa frá Afríku. En sumarið er sannarlega komið. Stutt upptalning á því sem drifið hefur á daga Hauksins síðustu viku: Verkefni var skilað, á tíma. Bjór var drukkinn, í tíma og ótíma. Hringur var hlaupinn, tímanlega. Sem sagt fremur rólegt og afslappað.

Noddinn er fluttur búferlum til nýlendunnar, samtímis með því að Hvíti Víkingurinn hélt aftur heimleiðis til þess að vinna fyrir kvenkosti sínum, barni og buru. Hauknum og frú var boðin ný íbúð uppi á Garði, sem þau og samþykktu, og munu því hefja búskap á Garði þegar heim verður haldið að nýju eftir sumardvöl í sveitarómantíkinni á austfjörðum.

Þegar heim er komið hyggur Haukurinn á að halda hátíðlega þann markverða atburð að hann heldur brátt inn í seinni hluta tvítugsáranna. Mikið verður vonandi gaman haft og kátína í húsi, þó svo að Haukurinn muni drekkja sorgum sínum og spilltri æsku. Lesendur fá meira að vita þegar nær dregur.

Haukurinn hefur talað!