laugardagur, desember 18, 2004

Jóladagatal Hauksins

18. desember

Haukurinn er vægast sagt kátur. Hann er nánast búinn að redda sér fyrir horn hvað jólagjafainnkaup varðar. Vitandi það að verkefnaskrif láta einatt bíða eftir sér, eða innblástur þeirra, þar til eftir hádegi þá dreif Haukurinn sig niður í miðbæ og drap jólagjöf handa Frúnni. Haukurinn minnti á mann þann sem Leoncie söng um forðum "...there is a killer in the park....". Hann skundaði, skeiðaði og skrapaði og gjöfin var í höfn. Haukurinn er sem sagt kátur með sig.

Haukurinn skilur engan veginn fólk sem hefur nennu í það að rölta um bæinn heilu dagana í innkaupaleiðöngrum. Hefur þetta fólk ekkert annað að gera? Haukurinn spyr sig hins sama þegar hann hugsar um alla þá sem mættu honum í gríðarbákninu sem Kringlan er, þegar hann stundaði nám við V.Í. Í hvert sinn sem Haukurinn neyddist til þess að ganga inn í þetta Mammonshof, á hvaða sem var, voru einatt einhverjir að versla. Óskiljanlegt.

Haukurinn hefur talað!