laugardagur, desember 25, 2004

Jóladagatal Hauksins

25. desember

Hauknum er spurn hvort að hægt sé að halda til haga jóladagatali eftir aðfangadag. Hann lýkur því hér með og vonar að lesendur hafi haft gaman af. Haukurinn er sem stendur í rúminu með góða bók við hendi og hyggur eigi á frekari skrif. Gleðilega hátíð.

Haukurinn hefur talað!

föstudagur, desember 24, 2004

Jóladagatal Hauksins

24. desember

Haukurinn óskar lesendum gleðilegra jóla og frelsaranum og smiðssyninum til hamingju með daginn.

Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jóladagatal Hauksins

23. desember

Haukurinn fagnar degi Þorláks helga í dag að hefðbundnum sið. Skötulyktina leggur um húsakynni foreldra Hauksins og hlakkar Haukurinn mikið til komandi veislu. Foreldrar Hauksins tóku þá vanhugsuðu ákvörðun að breyta gólfi og eldhúsi húss síns fyrir jólin - þau hafa síðan ákveðið að ef að þeim skyldi detta slíkt í hug aftur þá er öðrum leyfilegt að ljá þeim einn kinnhest. Því hefur Haukurinn þeyttst um húsið eins og stormsveipur - eða útspýtt hundsskinn - og þrifið, tekið til og lagað síðustu daga. Haukurinn er orðinn eilítið lúinn en þó sáttur við eigin framtak.
Haukurinn fór síðla dags með bróður sínum að leita að jólagjöf fyrir heimilisdýrið. Dýraverslunareigandinn sem þeir fyrirfundu var vægast sagt örlítið sérstakur. Sá hinn sami virkaði eilítið "víraður" og reyktur en þó vænn. Dýrum dómi greiddu þeir bræður fyrir amerískan harðfisk og hundamintur - enda dýrið farið að lykta eins og hin versta sorptunna. Haukurinn er sáttur.
Haukurinn hefur talað!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Jóladagatal Hauksins

22. desember

Haukurinn elskar bifreiðar en hatar bílstjóra. Hvernig venjulegu fólki tekst að breytast í einskæra kvartvita við það eitt að setjast undir stýri er Hauknum óskiljanlegt.

Haukurinn gerði sér óleik með því að fara Kringluna í dag. Bílastæði eru einnig of flókin fyrir hinn almenna akandi borgara. Þegar Haukurinn reyndi að komast út úr stæði var einatt kominn einhver apaköttur alveg upp að hans bifreið, hvoru megin. Fólk gaf Hauknum góðar 5 sekúndur til þess að komast af stað - en ef hann ílengdist í rólegri útbökkun þá var fólk komið alveg upp að bílnum. Svona eins og það hjálpaði honum eitthvað. Haukurinn tapaði "kúlinu" oftar en einu sinni í dag.

Svona eru jólin....

Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, desember 21, 2004

Gluggagægir

Jóladagatal Hauksins

21. desember

Haukurinn er grasekkill þar til snemma á næsta ári. Konan er farin aftur í föðurhús að njóta hátíðarinnar. Haukurinn er frelsinu feginn en þó ekki til svo langs tíma. Haukurinn mun fagna heimkonu kerlu þegar hún snýr aftur í fang hans. Hérmeð líkur grátskrifum Hauksins.

Haukurinn er búinn að dveljast einum of lengi í hofi Mammons, Kringlunni/Smáralind, síðustu daga. Hann mun berjast gegn því að þurfa að stíga þangað inn fæti næstu daga. Hvort það tekst mun tíminn leiða í ljós.

Haukurinn hefur talað!

mánudagur, desember 20, 2004

Bjúgnakrækir

Jóladagatal Hauksins

20. desember

Haukurinn er kominn heim. Vandinn er aðeins sá að hann á tvö heimili, og það sem hann skildi við sig bíður upp á ódýrari bjór. Haukurinn lét eftir sér og keypti sér ölskammtinn í formi Tuborg Julebryg. Haukurinn hafði frétt að hann væri uppseldur á skerinu og því tilvalið að mæta í hlaðið með eitthvað sem aðrir komast ekki yfir. Haukurinn keypti 6x6 bjóra á heilar 3400 íslenskar nýkrónur. 3400 krónur....!!! Haukurinn á ekki orð. Sambærileg innkaup í hinu konunglega danska ríki myndu kosta 120 danskar krónur, eða rétt um 1400 íslenskar krónur. Hvar er réttlætið?!? Haukurinn vill fara aftur heim.

Ferðalagið gekk ágætlega. Fjórir og hálfur tími fór í lestarferð - þar af svaf Haukurinn þrjá tíma - og svo var klukkutíma bið á Kastrup. Flugferðin tók þrjá tíma. Haukurinn svaf ekki en þar eð hann flaug með einokunarfyrirtækinu Flugleiðum, var flugið þægilegt og virtist mun styttra en flug með gripaflutningavélum Iceland Express. Haukurinn var ekki tekinn í tollinum. Heima við biðu hans flatkökur með hangiketi og kalt vatn með engu bragði eða kalki. Haukurinn vill vera heima.

Haukurinn hefur talað!

sunnudagur, desember 19, 2004

Skyrgámur

Jóladagatal Hauksins

19. desember

Hauknum er órótt í maga. Framundan er átta til tíu stunda ferðalag heim til Íslands. Haukurinn hefur engan veginn nennu í það. Haukurinn er farinn að breytast í Steve Martin í klassíkinni Planes, traines and Automobiles, taugatrekktur og hvítur sem nár. Haukurinn vill ekki breytast í Steve Martin. Hann kann ekki að dansa og er með skjannahvítt hár. Haukurinn vill miklu heldur vera Bruce Willis, þunnur og fúll inni á almenningsklósetti að draga glerbrot úr tánni.

Haukurinn hefur talað!