föstudagur, maí 21, 2004

Haukur sýnir sinn innri mann!

Lesendur taka líklegast eftir breytingum þeim sem Haukurinn hefur gert á síðu sinni. Oft hefur verið sagt, þó aðallega á engilsaxnesku, að ein mynd sé virði þúsund orða. Haukurinn hefur því ákveðið að láta af mótlæti og taka gervihnattaöldinni opnum örmum og reyna þessa nýbreytni. Lesendur þurfa eigi að hafa miklar áhyggjur yfir því að Haukurinn láti af þeirri venju sinni að rita eilítinn texta endrum og eins en geta glaðst yfir því að nú gefst þeim möguleiki á því að skyggnast bak við tjöldin og fá örlitla innsýn í veröld Hauksins.

Haukurinn biður lesendur af hafa hægan á og sýna þolinmæði, þar sem miðillinn er nýr og notandinn blautur bak við eyrun. Spurningin er eingöngu hvort að vefrit Hauksins sé nú orðið fjölmiðill, eigi lengur eingöngu einmiðill, og því falli það undir umtöluð fjölmiðlalög. Byltingarandinn er ríkur hjá Hauknum og mun hann keppast ötull fram!

Haukurinn hefur talað!

Frjádagur til verkefnaskrifa Læri læri tækifæri..... Haukurinn hefur myndað! Posted by Hello

sunnudagur, maí 16, 2004

Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn!

Haukurinn situr nú einu sinni sem oftar djúpt hugsi fyrir framan tóman tölvuskjá og krotar niður atburði liðinnar helgar. Af einhverri ástæðu þá hendir Haukinn fátt í miðri viku og svo virðist sem skrímslin fari einatt á stjá þegar nær dregur helgi. Þar sem að Haukurinn berst í augnabliki við hávaðasama byggingarverkamenn í höfði sínu þá er lesendum bent á að kvörtunum vegna þynnildislegs texta má koma á framfæri við Jesus H. Krist, pósthólf 888 í Köldu Helvíti. Njótið heil!

Brúðkaup Fígarós

Einhleypa kempan Friðrik Andri Henrik Kristján hefur verið lagður af velli. Hólmganga hans við hina skoskættuðu og skeleggu yngismey frá landinu undir niðri lauk með ósigri þar sem Tasmaníu Tæfan fékk sitt að lokum. Slík var glíma þeirra að prins krónunnar felldi tár af hvarmi bæði fyrir hólmgöngu, á meðan henni stóð og eftir að henni var lokið. Tasmaníu Tæfan gekk beint til verks og játaði hátt og snjallt í höfuðvígi hinna skandinavísku villimanna. Faðir hennar, Skoski Skeggur, hóf upp raustu og tók að þylja upp ættartölu ættar sinnar. Í ljós kom að ættir þeirra tengjast veldi hinna Gullnu Boga, hinna hakksamlokuseljandi illvirkja af ætt McDónalda og því hætt við að nú líði smurbrauðsvenjur Dana undir lok. Þar sem nú er eigi um auðugan garð að gresja hvað verðug eiginmannsefni er að ræða þá hvetur Haukurinn íslenskar valkyrjur að bíta í skjaldarrendur, vaða eld, fara hamförum og finna sér og kvænast síðustu aðalsmönnum evrópu.

Melodie Grand Prix

Daginn eftir hina evrópsku söngvakeppni er gott að setjast niður og rýna í niðurstöður gærkveldsins. Hin úkraínska Ruslana bar sigur úr býtum og þótti Hauknum hún eiga það skilið þar eð sviðsframkoma hennar bar af öllum öðrum keppendum. Haukurinn hafði þó fyrr um kvöldið typpað á það að hin íðilfagra Lena frá Svíþjóð færi með sigur af hólmi varð hún að játa sig sigraða fyrir villimannslegum dansi Ruslönu og félaga. Jónsi sem aldrei þessu vant klæddist eigi svörtum fötum heldur hvítum leit eilítið út eins og álfur út úr hól þar sem hann stóð einsamall með þandar hálsæðar og öskraði á áhorfendur í Tyrklandi um það að blanda litum unnustu sinnar við sinn bláa lit. Enn og aftur þarf því flytjandi hinnar íslensku þjóðar að snú aftur heim með brostnar vonir heillar þjóðar á bakinu. Haukurinn heldur því að ráð væri, í stað þess að vera endalaust að leita að hinni næstu björtu von, að hreinlega senda Birgittu Haukdal aftur og aftur í Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva þar til að hún vinnur hinn heilaga kaleik og snýr aftur heimleiðis með hann í för. Bæði myndi þetta einfalda valsferlið til muna og koma í veg fyrir það að Birgitta haldi áfram að syngja fleiri lög um fingurna sína. Haukurinn heldur einnig að þetta sé vel mögulegt þar sem Birgitta er sykursæt stelpa með skemmtilega sviðsframkomu og víst er að ef að hún heldur áfram að syngja á ensku þá hlýtur framburðurinn að batna. Ópen jor hart!

Haukurinn ákvað að vera ekki að hneikslast á nafngift dana á ofangreindri söngvakeppni og vísar því á félaga sinn sem hefur þegar gert sér mat úr því efni.

Haukurinn hefur talað!