miðvikudagur, október 11, 2006

Ég hugsa oft um börnin mín bráðum kemur að því að þau bíða ekki lengur, þau fara, hér er ekkert sem heldur í[...]
Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð.
Aldrei fór ég suður. Ásbjörn Morthenz.
Haukurinn vaknar oftast þreyttur, en í morgun var hann varla með sjálfum sér. Draumfarir hans höfðu skakað ærlega við honum. Hann hafði séð fyrir sér samfélag, þar sem allt var við það að leggjast í auðn. Þar bjó fólk sem var hreinlega bundið efnahagslegum og fasteignatengdum átthagafjötrum, og hafði það einfalda val að lepja dauðann úr skel eða flytjast til höfuðborgarsvæðisins og lepja dauðann úr skel.
Haukurinn sá fyrir sér, vissulega vanhugsaða, en vel meinta framkvæmd sem hefði verin ákveðin af þeim kosnu aðilum sem sátu við völd, þ.e. samþykkt af þjóðkjörnum einstaklingum, og framkvæmd í fullu samkvæmi við lög og reglur.
Haukurinn sá síðan fyrir sér, að þegar löngu eftir að búið væri að ákveða framkvæmdina, og satt best að segja þegar hún var komin langt á veg, þá hefði þjóðin loks vaknað til lífsins og ákveðið að láta til síns heyra. En í stað þess að mæta sjálf og kvarta, hefði hún reitt sig á innflutt vinnuafl sem farið hefði um hálendið og nærliggjandi samfélög fremjandi glæpi í nafni friðar og hins háværa minnihluta.
Að lokum sá Haukurinn fyrir sér að innan þjóðarinnar, hefði skapast ákveðin mótmælatíska, það er eftir að innflutta vinnuaflið hafði haldið heim á leið í kjarnorku- og kolaupphituðu híbýlin sín. Þetta tískufyrirbrigði safnaði að sér landsþekktum stuðningsaðilum, sem sáu sér leik á borði að upphefja eigin mannorð og frægð.
Menn sem jafnvel höfðu eytt ævinni í að styðja þessi samfélög sem lápu dauðann úr skel, gengu hratt á bak orða sinna, og hreyttu ónotum að fyrrum félögum úr þakíbúðum sínum og heldri manna jeppum.
Hauknum blöskraði hræsnin og vaknaði því með andköfum. Eins gott að heimurinn er ekki líkur þessari martröð.
Haukurinn hefur talað!