mánudagur, maí 03, 2004

Ríspekt!

Haukurinn er enn og aftur mættur á safn bókanna. Einn hópmeðlima er með skitu og því fjarri góðu gamni og hinn er á leiðinni. Haukurinn hlakkar eigi til þess að hanga hér innilokaður með skítugu austur-evrópubúunum sínum. Úti skartar Danmörk sínu fegursta, heiðskýrt, sól og um það bil 15 stiga hiti. Sem sagt vorið er komið og grundirnar gróa!

Germanía

Haukurinn hélt til Germaníu síðasta laugardag ásamt misfríðu föruneyti. Með í før var Konan, Skraddaraneminn og bóndinn af Garði. Mætt var á Honnorkajen klukkan 7:50 að morgni og klukkan átta var haldiþöð af stað með langferðabílafyrirtæki Jørgens áleiðis til landamæraverslunar Otto Duborg. Skyldu þar kaupast örfáir kassar af öli og eilítið annað þess háttar. Ferðalagið tók litla fjóra tíma og því klukkan um tólf þegar loks var komið á staðinn. Haukurinn verður að taka það fram þegar hingað er komið í sögunni að honum hefur verið sagt það frá blautu barnsbeini að engir væru jafn slæmir og Íslendingar hvað innkaup varðar þegar kæmi að því að láta eins og beljur sem er verið að sleppa út í fyrsta sinn að vori. Það sem mætti ferðalöngunum minnti á eitthvað sem eingöngu er hægt að lýsa þannig að það gæti líkst því ef Ríkið héldi útsölu á öllu áfengi dagana fyrir verslunarmannahelgi - slík var ringulreiðin í Padborg. Haukurinn og bóndinn biðu í þrjú kortér til þess eins að nálgast hornið þar sem ölið var geymt. Haukurinn varð í fyrsta sinn vitni að því að sjá Dani nöldra hvor í öðrum - vanalega tapa þeir aldrei "kúlinu" enda einatt sultufullir og því ávallt ligeglad. Fólk barðist um ódýrt ölið á hæl og hnakka - ekki það að á væri skortur því lagerinn var einn sá stærsti sem Haukurinn hefur barið augum fyrr og síðar - og minntu um margt á glorsoltna afríkubúa stormandi á matvælaflutningsvagn Sameinuðu þjóðanna. Eftir að hafa náð sér í 110 lítra af bjór, eitthvað af styrktum vínum og sælgæti héldu ferðalangarnir á kassann - sem nota bene var algerlega án raðar þar sem engum datt í hug að skjóta sér úr áfengisröðinni til þess að athuga afgreiðslukassana á endanum - og greiddu fyrir herlegheitin og héldu á ný aftur út í langferðabifreið Jørgens. Vörunum var staflað eftir bestu getu inn í farangurrýmið og sest inn í bifreiðina að nýju.

Inni í bílnum mætti ferðlöngunum einmana dani af asísku bergi brotinn og hóf hann samræður við hið misfríða föruneyti. Eftir dálitla stund þegar honum tók að leiðast sá leikur að reyna að fá eitthvað af viti úr íslendingunum hélt hann fram í bifreiðina og kom aftur á ný með stafla af ísköldum tuborg öldósum - augljóst að maðurinn var ekki að tala við norðurlandabúa í fyrsta sinn. Ferðalangarnir voru ølinu fegnir og þjóruðu og kjöftuðu. Augljóslega var ekki hægt að blóðmjólka grey skinnið og því héldu Haukurinn og bóndinn hvor sína bjórkaupaferðina. Eftir smá tíma hafði stofnast til eilítils teitis aftast í langferðabílnum og allir kátir. Hin fögru fljóð sem voru með í för fengu mesta athyglina en kumpánar þeirra voru fljótir að tilkynna mönnum að þær væru báðar sem stæði í eign og eigi falar. Fjarverandi ektamanni Skraddaranemans var lýst sem fjalli af manni huldum húðflúrum sem væri vissulega "hard core" og því menn fljótir að gera sér grein fyrir tilgangsleysi fjörufara sinna.

Heimkoman

Ferðalangarnir dóu eigi ráðalausir þegar heim var komið þegar koma átti fengnum heim á leið. Fengin var húsfrúin á Garði til þess að koma til móts við hópinn með hjólfákakerru heimilisins í för. Einnig með í för var heimasætan og var sú stutta eigi í besta skapi þar eð henni hafði verið lofaður matur en við tók þreytandi yfirseta til þess að fylgjast með því af fengnum sem ekki var hægt að taka með í fyrri ferðinni heim til Hauksins. Haukurinn og bóndinn selfluttu allan kostinn með hjólfákum sínum heim til geymslu hjá Hauknum og er því stofa Hauksins undirlögð í bjórkössum og farin að minna eilítið á lagerinn hjá Ríkinu.

Sunnudagur með skeið!

Haukurinn hafði verið það vitgrannur að lofa sig á dómaranámskeið í áströlskum fótbolta snemma morguns á sunnudeginum og hélt því af stað þreyttur með smiði í för. Við húsnæði AAFC mættu Hauknum dreggjar fylleríis gærkvöldsins því að drengirnir í boltanum höfðu boðið mótherjum dagsins áður í grill og fyllerí eins og þeim er einum lagið. Af þeim þremur tigum manna sem höfðu gefið vilyrði sitt fyrir mætingu var einungis mætt illútlítanleg tylft manna og sumir sátu enn að sumbli. Námskeiðið gekk upp og ofan, sá sem hafði lyklana að húsnæðinu mætti seint, sumir hverjir byrjuðu námskeiðið á því að opna sér einn kaldann Harboe og sá kátasti endaði sofandi á gólfinu með lim (typpi) teiknaðann á vinstri kinn. Haukurinn hafði gaman af en lítið var þó lært.

Haukurinn hefur talað!