mánudagur, september 15, 2003

Haukurinn sigrar á ný!

Haukurinn hefur enn á ný sigrað baráttuna við hið dofna og vitlausa lyklaborð sem hann hamrar á. Haukurinn hefur náð að þrýsta fram íslenskum séreinkennum sínum fram á skjáinn.......Victory at last!!!!

Haukurinn er við það að drukkna í óskiljanlegum og jarðeplaframdregnum framburði dananna hér í Álaborg. Haukurinn lærði dönsku, málið er bara það að danir tala ekkert dönsku. Allavegna ekki eins og þá sem Haukurinn lærði á sínum tíma hjá Jónu Hansen í Hagaskóla og Ágústu Ásgeirsdóttur í Verslunarskóla Íslands. Þessir blessuðu kvenskörungar hafa greinilega ekki haft hugmynd um þetta, því þær voru báðar ansi hreint ástríðufullar og illúðlegar í kennslunni. Haukurinn er hreint viss um að þær hefðu efast um tilgang kennslu sinnar ef þær hefðu heyrt það sama hrognamál og borið er á borð Hauksins daglega.

Eini möguleikinn til þess að skilja hvað sagt er, er ef maður er rokna ölvaður, en þá leið hefur Haukurinn enn ekki reynt sjálfur...

Annars gengur Hauknum bara ágætlega. Hann fer í skólann hvern dag með strætisvagni og varir sá túr u.þ.b. hálftíma á morgnana. Haukurinn hefur tekið þessari breytingu á ferðatilhögun með mestu rósemd, því að þó svo að Haukurinn sé vanur að tæta um götur Reykjavíkur á Renault sjálfrennireið sinni, þá er hreint út sagt allt í lagi að taka "strætó" hér í Álaborg. Munurinn á leiðakerfum Reykjavíkur og Álaborgar er sá að hér í Álaborg koma vagnarnir á réttum tíma og fara allar helstu leiðir. Einnig má taka það fram að hér í Danmörku virðast strætisvagnar ekki vera sömu segulstálin á rugludalla og geðveika eins og heima í Reykjavík. Hér í danmörku eru það mest námsmenn sem maður sér í vögnunum en líkt og allir þeir sem nokkurn tímann hafa tekið strætisvagn á Íslandi vita, þá fyllast íslenskir strætisvagnar venjulega af geðsjúkum og öldruðum sem tala við sjálfa sig og aðra, lykta illa og hegða sér að mestu leyti á annan hátt illa, öðrum til ama.

Haukurinn mun halda áfram sinni hugarleikfimi innan skamms, en þetta er nóg í bili.....!

Haukurinn hefur talað!