miðvikudagur, mars 02, 2005

Hard at work or hardly working?
Eitt af því sem hefur valdið Hauknum hvað mestu menningarsjokki síðan hann flutti hingað til Danmerkur eru danir með atvinnu og þá sérstaklega danskir iðnaðarmenn. Haukurinn er alinn upp af tveimur afturbata vinnuölkum, og er aukinheldur afkomandi heils haugs af álíka fólki, og er því vanur ákveðnu vinnusiðferði. Eftir að hafa búið hérlendis í á annað ár þá er Haukurinn enn orðlaus yfir því að Danmörk fari hreinlega ekki bara á hausinn.
Hérlendis eru ávallt stöðug ríkisútgjöld sem fengju hinn almenna íslending til þess að fölna og velferðarkerfi sem meira að segja rúmar fjármagn til handa útlendingur - hvort sem þeir hafa náð að smygla sér inn í Danmörku eða búa enn sem komið er í kofa í Langtiburtistan. Danir telja barneignir sem atvinnu og því eru allir foreldrar sem ekki eru með atvinnu eða í námi á atvinnuleysisbótum. Af því að það er talið til atvinnu að sjá um börnin sín.....
En svo er hreinlega málið að þeir danir sem hafa vinnu eru hreinlega ekki að vinna hana. Haukurinn hefur oft kvartað yfir skrifstofutímum ríkisstofnana á Íslandi, en þeir eru hreinlega hátíð samanborið við danska starfsbræður þeirra. Hérlendis lokar allt um þrjú, og það eftir góða 7 tíma af "streði", og svo er á mörgum stöðum lokað á hádegi á föstudögum. Haukurinn er hreinlega farinn að velta því alvarlega fyrir sér að sækja um starf í þessari útópíu - skítt með launin bæturnar virðast duga dönunum.
Svo eru það blessaðir dönsku iðnaðarmennirnir. Hér í landi eru menn í iðnaði einatt séðir með öl í hendi (þar sem almennt er leyfilegt að neyta eins bjórs í vinnutímanum) og ávallt tveir til þrír í hópi starandi á einn meðan hann vinnur. Þetta er ekki einskorðað við iðnaðarmenn, því borgarstarfsmenn stunda þetta sí og æ. Haukurinn hefur margoft gengið fram hjá mönnum að grafa skurði meðan tveir eða fleiri félagar þeirra standa með hönd í vasa og horfa á gröftinn. Tveir vinir Hauksins eru vanir iðnaðarvinnu og hafa þeir því rætt þetta innbyrðis í lengri tíma. Þó svo að vér höfum beint brennidepli okkar að því hvernig Danir byggja hús, þá hefur allt ofanritað borist í tal. Sem sagt, danskir iðnaðarmenn fá hreinlega falleinkunn frá íslenskum karlmönnum.
Haukurinn hefur talað!