laugardagur, nóvember 13, 2004

Hestur, mús, tittlingur og endur fyrir löngu!

Haukurinn hefur skriftir í nýjum heimi. Heimsmyndin hefur umverpst á síðustu tveimur vikum; rauðhálsinn Georg W. sigraði hinar amerísku forsetakosningarnar í fyrsta sinn, slæðuhausinn brosmildi Yassir Arafat féll fyrir hendi Elli kerlingar og sólbrúni galgopinn Þórólfur Árnason missti vinnuna. Sem sagt allt að gerast!
Haukurinn hefur þrátt fyrir allt ekki misst dampinn og treður ótrauður áfram í óvissuna.
Hestur
Haukurinn er, eins og lesendum er kunnugt, eigandi ýmissa mismunandi hjólhesta. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, og þegar nú er svo komið við sögu eru alls fimm hjólhestar í hjólhestageymslunni. Sú staðreynd að hestarnir eru margir er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi heldur hitt að illa gengur að halda þeim öllum gangandi. Haukurinn er engan veginn að fara illa með gripina, frekar það að danskt undirlag virðist ekki gera gripunum gott.
Haukurinn á sér uppáhald af þeim hjólum sem í boði eru, nefnilega kappreiðhjól af gamla skólanum með hrútastýri og alles. Því fylgdi því mikil sorg þegar það varð flatt að aftan sökun sprungu í barða. Haukurinn lét eigi deigan síga við þessi ósköp og skipti einfaldlega um hjól. Sá gripur er af sömu gerð og hinn fyrri en er hins vegar með svokallaða "kvennastöng". Haukurinn hafði nýtt þessa gæðadruslu í u.þ.b. tvær vikur þegar hið sama átti sér stað, þ.e. sprakk á afturdekki. Haukurinn ákvað að láta eigi deigan síga að öðru sinni og hélt galvaskur af stað til Bóndans á Garði til hjólaviðgerða. Hjólskeifuskiptin gengu eins og vel smurð vél og því gat Haukurinn haldið aftur heim á nýbættu hjóli.
En viti menn, danska malbikið gerði öðru sinni atlögu að fáknum og náði þessu sinni að púnktera framdekkið. Þegar þetta átti sér stað var Haukurinn á hraðri ferð niður einu brekku Álaborgar, sem er ansi hreint nokkuð brött - meira að segja á íslenska mælikvarða - og því Haukurinn hætt kominn. Hann ákvað því að hægja á ferðinni og skella sér upp á gangstétt. Það gekk eigi betur en svo að framgjörðin lenti á kanthorni og brotnaði ansi hressilega. Þar með féll Hauknum allur ketill í eld og stóðu gufustrókarnir út úr eyrum hans. Haukurinn þakkaði frúnni fyrir veitta hjálpsemi og bað hana góðfúslega að halda heim á leið svo að skapofsinn myndi eigi bitna á henni.
Haukurinn tók sér góðan tug mínútna í það að ná aftur ró sinni, eða "týna kúlið aftur upp úr niðurfallinu" eins og Bóndinn á Garði myndi segja. Á þeim tíma tók Haukurinn þá ákvörðun að skella hinu brotna framdekki tvisvar duglega í jörðina og athuga afleiðingarnar. Þær voru þess háttar að framhjólið fór hreinlega í 'small' og var Haukurinn hreinlega vitrari fyrir vikið. Eftir þessi ragnarök, ákvað Haukurinn að kyngja stoltinu og halda aftur á Garð. Bóndinn hafði nefnilega boðið honum einn sinna fjölmörgu hjólhesta að léni til heimfararinnar. Haukurinn þáði það með þökkum og tölti því aftur upp brekkuna með fjölfatlaðan hjólhest sinn. Ef einhver er að velta því fyrir sér hvernig Haukurinn fór að, þá getur hann upplýst lesendur um það að hann hélt annari hendi í stýrið, hinni í hnakkinn og reiddi hjólið upp brekkuna eingöngu á afturdekkinu - ansi skemmtileg jafnvægislistaræfing.
Haukurinn hélt síðan af stað heim, öllu rólegri í skapi, á Undna Grána, lánshjóli Bóndans. Undni Gráni er ágætis gripur, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að báðar gjarðir hans eru undnar eins og bjúgverplar - eða búmmerang fyrir þá sem kjósa frekar áströlsku. Þetta hefur mikil áhrif á hjólið sjálft og lætur það sífellt öllum illum látum þegar það er notað. Samt sem áður var Haukurinn gífurlega þakklátur að þurfa eigi að ganga heim eins og Valgeir forðum daga.
Haukurinn greip tækifærið fegins hendi þegar heim var komið og setti ný-uppgert dekkið af hinu látna hjóli undir uppáhaldið. Þessi blanda virkaði afar vel, eða allavega í tvo daga. Þessu sinni sprakk framhjól uppáhaldsins Hauknum til mikillar gleði og ánægju, en minnugur baráttunnar við fjölfatlaða hjólið þá lét hann vera að ráðast til atlögu við hjólhestinn að þessu sinni.
Haukurinn fékk að skipta út Undna Grána, í hjólhesthúsi Bóndans, og tók sér að léni gífurlegt kappaksturshjól af Pusjó gerð. Á þessum grip hjólaði Haukurinn kátur eins og blár logi og lét vel af. Menn höfðu að gamni þessar lífsreynslur og gáfur Hauknum 25 prósenta líkur að hann myndi einnig sprengja dekk Bláa Pusjóins. Hlógu menn dátt og Haukurinn hélt heim.
Daginn eftir fór Haukurinn á æfingu á Bláa Pusjóinum. Hann mætti ögn snemma og ákvað því að verðlauna sjálfan sig með orkugosdrykk úti í nálægri bensínstöð StatOil. Þegar Haukurinn hélt til baka á æfingu þá fékk hann það endanlega staðfest að eldingu getur alveg slegið þrisvar niður á sama stað, því að á miðri leið sprakk afturdekk Bláa Pusjóins. Haukurinn var ekki glaður en hélt samt sem áður ró sinni.
Mús
Litla músin Nýbúanna hefur fundið jafnvægið. Hún er hætt öllu skriði og spígsporar galvösk út um allt. Hauknum finnst það magnað og merkilegt.
Tittlingur
Fyrir þá lesenda sem hafa séð gæðasjónvarpsþættina "Top Gear" þá kannast þeir við það þegar einn umsjónarmannanna segir "hani" eða "cock" þegar honum gremst eitthvað. Hauknum finnst þetta ótrúlega skemmtileg málnotkun og hefur óspart skemmt sér með félögunum yfir því.
Endur fyrir löngu
Mortens kvöld er einn hátíðisdaga dönsku þjóðarinnar. Fólk hópast saman og gæðir sér á öndum eða gæsum og hefur gaman. Þó svo að þeir séu flestir frekar óvissir á nákvæmri tilurð hátíðarinnar, þá er dagurinn haldinn til minningar um téðan Morten sem var uppgötvaður á flótta undan kaþólskum illmennum þegar endur/gæsir í kofa sem hann hafði falið sig í létu öllum illum látum. Hann strengdi þess heit að héreftir yrðu allir að eta endur/gæsir til minningar um þetta sögulega kvak. Danir viðurkenna reyndar sjálfir að þessi dagur sé einstaklega góð ástæða til þess að þjófstarta á jólamatnum - enda gera Danir fátt betur en að vera góðir við sjálfa sig.
Kommúna Hauksins, sem samanstendur af hans nánasta vinahóp, ákvað að halda þennan dag hátíðlegan með andaáti og Mortens músík - eða öllu heldur Morthens músík runna undan rifjum Ásbjarnar trúbadors. Hjörleifur Helgi tók að sér hið erfiða verk að grilla endurnar og tókst ótrúlega vel til. Allir átu á sig gat og sátu sáttir eftir.
Haukurinn getur alveg séð fyrir sér fleiri Mortens kvöld, þvílíkt var gamanið.
Haukurinn hefur talað!