þriðjudagur, september 21, 2004

Landhögg, strandhögg og illir leikir!

Hauknum leiddist. Hann ákvað að skrifa blogg frekar heldur en að snúa sér að því að gjöra híbýli sín þessleg að foreldrar hans geti dvalið þar um stund. Annars ætti Haukurinn einnig að sitja fast við lærdóminn en eins og hann sagði áður, þá leiðist honum.

Danskir dagar

Eins og áður sagði eru foreldrar Hauksins á leið til Álaborgar. Þau eru sem stendur stödd í lest á leið í gegnum einhvern þeirra rassgatsbæja sem járnbrautin danska leggur leið sína um. Hauknum heyrðist á þeim að nafn bæjarins endaði á rup - svona eins og nafn eins af andaþríburunum úr Andabæ. Móðir Hauksins hafði á orði að eftir u.þ.b. tug mínútna væri maður orðinn þreyttur á landslaginu hérlendis; "sveitabær, sveitabær, kú, kú, tré, tré, múrsteinahús, múrsteinahús....endurtaka sama aftur". Haukurinn er hjartanlega sammála. Danir eiga kannski kaldann bjór á billegum prís en engin fjöll og fyrnindi. Ísland best í heimi!

Neyðarlegt niðurlag

Þrátt fyrir að hafa bundið miklar vonir við komandi leiktímabil hjá sínum mönnum frá borginni við Mersey á, þá varð Haukurinn fyrir miklum vonbrigðum með tilburði liðsins í leik gærdagsins við hina illu markaðsetningarmenn frá Manchester. Greinilegt er að spænska kryddið er ekki að setjast nægilega vel í drengina frá Liverpool og ill meltingin er auðsjáanleg. Þegar menn voru í vafa hvað skildi gjöra var dottið aftur á gamla taktík og boltanum neglt fram á við og keppst við að hitta í hausinn á nýja svarta manninum. Sá hinn sami virtist heillum horfinn og eigi allskostar sáttur við þjónustu miðjunnar.

Þó svo að hin síðari ár hafi varnarleikur verið aðalsmerki liðsins var það eigi sjáanlegt á leik liðsins í gær. Einfaldar markeringar virtust vefjast fyrir mönnum og olli það því að hinn franski Júdas náði að rekast í boltann tveim sinnum með þeim afleiðingum að hann endaði í netinu. Þrátt fyrir ágætist viðleitni frá stórsóknarmanninum írska O'shit þá urðu mörk Liverpool manna eigi fleiri að þessu sinni. Tsk, tsk, tsk. Sveiattan...!

Haukurinn hefur talað!

P.S. Í ljósi mikilla vinsælda mun Haukurinn halda áfram að spá í kosti og galla dýralífsins.

P.P.S. Hefur einhver velt því fyrir sér að öndum leiðist í hellum? Ekkert bergmál.....

mánudagur, september 20, 2004

Ský, ský burt með þig!

Haukurinn er ekki alveg að sætta sig við veðraskiptin sem fylgja haustinu. Rigningin á ekki upp á pallborðið né heldur rokið. Haukurinn hlakkar heldur ekkert svakalega til þegar slyddan og snjórinn mæta á staðinn. Haukinn lengir eftir sól og sumri....

Robinson Livø

Haukurinn fór í stúdentaferð til eyjarinnar Livø í Limafirði í síðustu viku. Forboðuð tilætlun túrsins var sú að hrista fólk saman fyrir komandi annir og skapa samkennd meðal nemenda. Þessu var ætlað að koma í verk með því að hrúga öllum hópnum saman í ferð til eyjar þar sem aðeins búa þrjár manneskjur að staðaldri og hella alla pissmígandi fulla.

Til þess að geta heimtað peninga út úr hinum ýmsu ríkisstofnunum hérlendis var aukinheldur boðið upp á eilítið námstengt. Það stóð yfir í u.þ.b. tvo tíma og síðan tóku menn að bíða kvölddrykkjunnar óþreyjufullir og fullir eftirvæntingar. Biðið var, eins og boxarinn sagði, löng og ströng. Fátt var hægt að gera sér til dundurs á eynni og dvöldu menn því bara á herbergjum sínum og létu sér leiðast. Rigning, rok og friðunarreglur ýmisskonar útilokuðu boltaleiki og ekkert var um rafmagnstæki þannig að menn horfðu súrir út um gluggann þar til kvölda tók. Fylleríið fór vel af stað og tókst vel, því á endanum voru allir orðnir fullir. Haukurinn skemmti samnemendum sínum með því að taka í nefið og láta vel af. Danirnir voru ragir til að reyna en þeir sem það gerðu létu öllum illum látum sökum "áhrifanna" sem þeir fundu af tóbakinu. Menn gripu um nef sér og táruðust eins og litlar smástelpur. Þetta kvöld var Haukurinn ótvírætt karlmaður kvöldsins.

Dagur tvö puntkur. Fátt gerðist. Haukurinn fór í þynnkugöngu ásamt tveim félögum sínum. Sú ganga var ágæt. Svo var sofið þynnkusvefni. Þegar kvölda tók var haldið á þemafyllerí kvöldsins. Þar áttu allar stórgrúppur að klæða sig upp í ýmis gerfi og fara á fyllerí. Hauksins grúppa átti að vera diskó. Haukurinn hefði frekað viljað vera víkingur. Samt sem áður, ágætis fyllerí.

Daginn eftir var haldið heim á leið aftur. Þannig fór um sjóferð þá, þó svo að erfitt sé að tala um Limafjörðinn sem sjó og það að kalla tuttugu mínútna ferð í lítilli dollu sjóferð sé svoldið tæpt.

Haukurinn hefur talað!

P.S. Af hverju eru köngulær ekki með hendur? Þær geta engan veginn keypt sér hanska....