fimmtudagur, desember 11, 2003

Evreka!

Haukurinn situr þessa dagana við skriftir eins og lesendum er orðið vel kunnugt. Haukurinn lætur lærdóminn þrátt fyrir það ekki koma niður á því að hann skemmti sér. Því að eins og Blábjánar Norður-Ameríku segja einatt: "All work and no play make X a dull boy" sem þá þýðist á íslensku sem "allt starf og engin leikrit gera X að leiðingjörnum dreng". Hver svo sem merkingin á að vera þá gerir Haukurinn ávallt ráð fyrir hléum á lærdómi sínum.

Því var það í einu slíku hléi að Haukurinn settist niður og skellti myndbandi í myndbandstækið, nefnilega gæðaræmunni Predator eða "Rándýrinu". Þar fer fyrir 'fríðum' hópi galvaskra bardagamanna Arnaldur nokkur Svartinaggur í hlutverki Dutch ofursta. Þetta er í sjálfu sér ekki í bloggsögur færandi að undanskilinni þeirri staðreynd að með annað lykilhlutverk í myndinni fer maður að nafni Jesse Ventura - nei Ísi, hann er ekki frændi Ace.

Haukurinn er ekki manna snjallastur en að þessu sinni virtist hamsturinn á hjólinu fara hamförum. Haukurinn gerði sér snarlega grein fyrir annarskonar tengslum milli þessara tveggja ágætu manna. Nefnilega það að báðir eru þeir eða hafa verið ríkisstjórar hvor í sínu ríkinu í BNA! Haukurinn varð heldur betur kátur við þessa uppgötvun sína og tók til við að velta þessu all hressilega fyrir sér.

Haukurinn telur að hér hljóti að vera um einhvers konar leyniáætlun hagsmunahópa í Hollíwúdd um yfirráð yfir BNA. Haukurinn velti því fyrir sér hver yrði næstur settur í stól ríkisstjóra og hefur sannfærst um að sá verði Karl Veðurs. Karl þessi Veðurs er best þekktur sem Appoló Krít úr myndunum um málhalta hnefaleikakappann Steina eða "Rocky". Haukurinn spáir því að Karl Veðurs verði næsti ríkisstjóri annaðhvort Texas eða Flórída, einkum vegna þess að þá hefur myndast þríhyrningur á landakort BNA. Allir helstu samsærisspekúlantar samtímans gera sér grein fyrir mikilvægi þríhyrningsformsins og því ætlar Haukurinn að halda sig við kenningar þeirra.

Hvernig þetta endar allt saman verður sagan að segja til um en eitt er víst, að hér er eitthvað fiskilegt á seyði!

Haukurinn hefur talað!

mánudagur, desember 08, 2003

Hoe, hoe, hoe!
Where is my hoe?


Haukurinn er eiginlega fastur milli steins og sleggju. Verkefnaskil hjá honum og hópnum eru eftir 10 daga, og enn er eftir heill hellingur af kvikindinu. Haukurinn reynir að berja sjálfan sig áfram og reynir umfram allt að koma hópfélögum sínum í skilning um innri sannleika íslenska hugtaksins um að "það reddist". Pawel hinn pólski fékk þá útskýringu á pöbbnum um daginn að það sem kæmist næst því væri "hakuna matata" úr Konungi Ljónanna eftir Walt Disney og félaga. Haukurinn var eiginlega ekki alveg sammála því að þessi afríski orðaleppur úr teiknimynd með talandi vörtusvínum og leikandi ljónum næði fyllilega að fanga hinn íslenska raunverkuleika - en gaf sig að lokum.

Haukurinn uppgötvaði ansi hreint skemmtilegt orð á dögunum, nefnilega engilsaxneska orðið yfir hlújárn eða hreykijárn. Það mun vera hoe og ef lesendur þurfa frekari útskýringu þá má finna hana hérna.

Það skemmtilegasta við þetta blessaða orð er það að það er borið eins fram og engilsaxneska orðið whore, sem útleggst á íslensku sem hóra, skækja, vændiskona eða mella.

Það vekur upp annan orðdraug í huga Hauksins. Hið íslenska orð hórmangari eða melludólgur er nefnilega þýtt á dönsku sem alfons. Hauknum og félögum þótti þetta ögn fyndnara en þeim dönum sem þeir töluðu við varðandi það. Haukurinn rakst síðar á myndband á MTV með Snúbb hundi hund, þar sem hann talar um það að "if da hoe don't give me my money I'll pimpslap her..." (eða eitthvað þvílíkt) sem útleggst á íslensku sem "ef skækjan/hlújárnið gefur mér ekki peninginn minn þá mun ég melludólgslöðrunga hana...". Þegar danska orðinu alfons er síðan bætt í grautinn, þá er hægt að finna út að "to pimpslap" eða að melludólgslöðrunga heitir nú hjá Hauknum og félögum ekkert annað en að Alfonsa!

Lesendum til aukins fróðleiks, þá er bent á að "pimpslap" (eða Alfonsinn) er framkvæmdur öfugt við "bitchslap", þ.e. að notuð er bakhöndin við það að löðrunga ekki lófinn. Haukurinn tekur ennfremur fram að hann er ekki að hvetja fólk til þess að beita Alfonsinum, aðeins er um fræðilega umræðu að ræða, en samt má taka það fram að Alfonsinn er ansi hreint vígalegur og ógnandi þegar honum er brugðið á loft. Sést það best á því að Snúbb hundi hundur fær alltaf borgað það sem honum ber.

Því má bæta við að nú stendur yfir könnun hér til hliðar á síðunni og vill Haukurinn endilega hvetja lesendur til þess að hjálpa honum að skera úr þessu máli.

Haukurinn hefur talað!