miðvikudagur, janúar 14, 2004

Lati Geir á lækjarbakka...!

Haukurinn er latur. Hann er latur þegar kemur að því að skrifa, sem virðist bæði gilda um ritgerð þá sem hann á að skila inn á mánudag sem og daglega bloggið. Haukurinn ætlar að drekka nokkra kaffibolla, drekka smá lýsi og fá sér morgunmat og sjá síðan hvort að hann fyllist ekki aukinni orku og ritþörf.

Haukurinn hefur frá fáu að segja því að hér í Danmörku er fátt að gerast - eða má maður kannski nota 'ske' þegar maður býr í danmörku. Haukurinn fór í verkefnisvörn sjötta janúar og stóðst það með virtum. Haukurinn kom nokkuð vel út úr téðri vörn þar sem hann þjáist af þeirri meinloku að hann hatar þagnir og er því sífellt að leitast við að fylla þær með tali. Í ljós kom að þetta er víst góður eiginleiki í munnlegur prófi og því var Hauknum borgið.

Haukurinn og konan fóru í gærkveldi út að borða til þess að halda upp á afmæli konunnar. Farið var á hinn klisjulega nefnda 'Romeo og Juliet' og borðað þríréttað. Herlegheitin kostuðu rétt um 250 dkr, með öli og víni, og telur Haukurinn vel sloppið. Maturinn var hreint út sagt ágætur og staðurinn fínn - þrátt fyrir klisjulegt nafn. Þjónustustúlka kvöldsins fór á kostum og missti meðal annars eitt (tómt) glas og eina nótubók á borðið þegar hún tók pöntun skötuhjúanna.

Haukurinn tekur eftir því og er þakklátur fyrir góðar viðtökur sem kannanir hans hafa fengið. Þær hafa leitt í ljós að Celine Dion er antikristur - nokkuð sem Haukinn hefur grunað í lengri tíma - og að Siggi er svarti maðurinn. Þar með er það komið á hreint. Haukurinn biður lesendur að hafa augun opin fyrir nýjum könnunum og biður einnig um sömu viðtökur og þær fyrri hafa fengið.

Haukurinn hefur talað!