fimmtudagur, mars 17, 2005

Ó Danni drengur, pípurnar, pípurnar þær kalla....

Enn og aftur reynir Haukurinn á þolrif lesenda með móðurmálssnörunum sínum. Hér vísar Haukurinn til lagsins "Oh Danny boy.." í tilefni dagsins, nefnilega dags heilags Patreks.
Haukurinn hefur margsinnis tjáð sig um það hversu mikið hann þolir ekki þegar reynt er að selja 'heilbrigðu' fólki hátíðisdaga annarra þjóða, þá einkum vina vorra í vesturheimi Ameríku. Haukurinn hefur megna óbeit á valentínusardegi, hrekkjavöku og þakkargjörðarhátíðardegi - eða kalkúnadegi líkt og hann er einatt kallaður í BNA.
Þetta orsakast einkum af þeirri einföldu staðreynd að þessir dagar hafa engin tengsl við íslenska menningu, en einnig af þeirri staðreynd að Haukurinn þolir ekki þegar fólk reynir að selja honum hluti sem hann þarf ekki á að halda. Haukurinn hefur ekkert við hrekkjavökubúning að gera, né heldur valentínusarkort skreytt myndum af bangsum og hjörtum.
Ennfremur hefur Haukurinn ekkert við það að gera að eta kalkúna til þess að fagna því að breskir öfgatrúarmenn sáu aumur á innfæddu skrælingjunum sem héldu þeim lifandi með korni og öðrum vistum um leið og kólna fór á meginlandi ameríku - Haukurinn sér meiri tilgang í því að brenna korn, brauð og bakkelsi til þess að mótmæla þeirri meðferð sem danskir einveldiskaupmenn veittu íslenskum almenning til forna.
Hinsvegar hefur Haukurinn ákveðið að gerast hræsnari af æðstu gráðu og fagna degi heilags Patreks með pompi og prakt. Þegar fagnaðarlátin felast að mestu - eða öllu - leyti í því að sötra bjór og slappa af er Haukurinn meira en viljugur að taka þátt. Haukurinn sér fram að þægilega kvöldstund á hverfiskránni, með volgan Guinness í hendi skreyttan grænni froðu, íklæddur sínu fínasta, græna dressi. Líkt og írarnir segja: Is milis dá ól é ach is searbh dá íoc é - Það er sætt að drekka en biturt að borga.
Beannachtam na Feile Padraig! - Gleðilegan sankti Patreks dag!
Haukurinn hefur talað!