mánudagur, janúar 16, 2006

"Er ég kem heim í Búðardal...."
Haukurinn er kominn heim - heilu og höldnu. Hann þakkar kærlega fyrir góðar stundir með þeim sem hann hitti fyrir heima á Íslandi, sem og þakkar hann ekki fólki fyrir slæmar stundir sem hann átti með þeim.
Prófin eiga hug Hauksins allan, og því er fátt að segja.
DV er augljóslega búið að skíta á sig að fullu - sem er skrítið þegar litið er til núverandi fyrrverandi ritstjóra blaðsins. Mikael Torfason, sem hefur skrifað tvær úrvals unglingabækur um dóp, kynlíf og sódómiseringar, virtist týndur í viðtölum. Hann kom Hauknum svoldið fyrir sjónir eins og fólk sem er stoppað í Kringlunni til þess að svara spurningum um heimspeki Foucault í beinni útsendingu - einstaklega illa máli farinn grey skinnið. Jónas Kristjánsson, sem Haukurinn man eftir sem matargagnrýnanda í Vikunni í gamla daga, minnti meira á Eirík Jónsson en nokkuð annað - reiður eldri karl gripinn með fingurna í kökuboxinu. Allt í allt frekar slakt eitthvað.
Sveinn Göran Eiríksson er einnig búinn að fara á kostum síðustu daga. Maðurinn er hreinlega ekki klárari en það að hann heldur að allir arabar sem tala við hann séu ríkir arabar, sem hægt sé treysta fyrir ótrúlegustu hlutum. Ef Haukurinn væri Svenni, þá myndi hann nú bara halda ká joð. Svíar eru ótrúlega glærir.....
Norðmenn halda áfram að skila ótrúlegum hagnaði. Væri ekki mál að fá þá til að sjá um fjármál íslenska ríkisins? Ekki það að íslenska ríkið sé í sérlegum vandræðum, en það má alltaf bæta stöðuna. Fáum bara Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra....eða forseta...eða forsætisráðherra...eða hvað hann nú er til að hringja í þessu megnu og mætu frændur okkar og tékka á stöðunni.
Haukurinn hefur talað!