miðvikudagur, mars 10, 2004

Les Visiteurs!

Haukurinn er kátur þessa dagana þar eð Kristmundur Kvíti og Halla drottningarmóðir eru mætt í mörkina. Skötuhjúin er hingað komin til þess að kanna hvort að grasið sé virkilega grænna hérna megin við lækinn líkt og Afjólfur "vor" heldur einatt frammi. Ferðalagið var víst mun betra enn fyrri ferð þeirra skötuhjúa hingað, þar sem Kristmundur Kvíti hafði í þetta sinn heila röð sæta fyrir sjálfan sig í vél Iceland Express - mikil framför fyrir þennan hávaxna mann sem síðast hafði setið pakkaður úti við væng í fullri vél af fólki. Lestarferðir virðast eigi heldur vera vinsæll ferðamáti hjá kvíta manninum, því að þó svo Haukurinn og Afjólfur væru mættir á brautarstöðina með öl í kæli, fána og fíflalæti var heiðursgesturinn eigi léttur á brá. Ef satt skal vera satt þá verður einnig að viðurkennast að K.K. ljómaði af gleði eftir að honum hafði verið komið fyrir í sófa í kitru Afjólfs með ódýrann Carlsberg og brauð með dönsku salami í hendi. Síðan þá hefur fátt getað dælt skapgleði ferðalanganna og getur Haukurinn ekki sagt annað en að þeim sé farið að líka vel við sig í borginni við Limafjörðinn.

Einu sinni sem oftar þá er ávallt full dagskrá skipulögð þegar von er á gestum og í þetta sinn er engin breyting þar á - hvað K.K. varðar allavegna. Farið verður á nemendahúsið í kvöld að kíkja á alþjóðakveld og drekka ódýrt öl og síðan er planið að ná einum föstudagsbar á Cafe du ve og kíkja á ódýrt öl - Haukurinn hvetur lesendur til að fylgja þessum hlekk og lesa undir 'sortiment' hvaða verð námsmennirnir krefja félaga sína fyrir ölið. Haukurinn missti reyndar af árlegu ferðinni í storcenter og þar með einnig ferð í BILKA en hann verður satt best að segja að þangað inn hefur hann eigi langað í lengri tíma. Fyrir þá sem eigi vita þá er ofangreint apparat skrímsli af verslun og fölnar hagkaup í smáralindinni í samanburði. Haukurinn sér meinbug á of tíðum verslunarferðum og kýs fremur að fara einu sinni í viku - eigi oftar. Haukurinn er nú farinn að tapa þræðinum og telur slíkt ágætis enda á annars dagbókarlegan pistil.

Haukurinn hefur talað!