fimmtudagur, desember 16, 2004

Jóladagatal Hauksins

16. desember

Fyrr en dagur fagur rann, freðið nefið dregur hann, undan stórum steini, undan stórum steini. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er ofanritað fyrra erindi vísunnar Krummi svaf í klettagjá. Haukurinn ákvað að hefja sinn pistil í dag á þessum margrómuðu orðum, vegna þess að honum var hreinlega frekar kalt þegar hann vaknaði í morgunsárið. Hann er hreinlega handviss um að Danir viti ekkert um húsbyggingar, því að þó svo að allir gluggar séu fastlokaðir þá er samt ávallt loftstraumur í gegnum íbúð Hauksins - og verandi vetur þá er þessi straumur frekar í kaldari kantinum.
Haukurinn fór í Karate-gráðun seinnipart dags, og gekk vægast sagt agalega. Haukurinn klúðraði á klúður ofan, en náði samt gráðuninni. Haukurinn er þakklátur fyrir góðvild kennara sinna og gjafmildi.
Seinna um kvöldið var hauststarfinu slúttað með ærlegri veislu, pompi og prakti. Karate-karlar og konur einhentust á Konrads Café í miðbæ Álaborgar og gæddu sér á gómsætum veitingunum. Haukurinn fór varlega inn um gleðinnar dyr, þar eð lifur hans er engan veginn í sama keppnisformi og hún var fyrir tæpum tveim mánuðum síðan. Þannig virðist sem heilbrigt líferni hafi komið niður á drykkjuhæfileikum Hauksins - því er nú verr og miður. Haukurinn minnist orða bróður Bóndans "...bjórinn bjargaði mér frá íþróttabölinu..." en harmar að öfugt er fyrir honum sjálfum farið.
Haukurinn biður lesendur að bjóða Pottaskefil/sleiki velkominn til byggða. Hann er annar í röð hinna sleikjandi jólasveina - hinn fyrri kom í gær, Þvörusleikir að nafni og hinn síðar er væntanlegur á morgun.
Haukurinn hefur talað!