miðvikudagur, janúar 19, 2005

Fyrstu skrif ársins 2005

Haukurinn hefur á nýjan leik skriftir eftir þá lengstu pásu sem hann hefur tekið sér síðan hann varð fyrir miklu netsambandsleysi í Noregi. Haukurinn afsakar, en bendir þó lesendum á það að hann hefur setið myrkranna á milli með bók í hönd að frumlesa u.þ.b. 400 blaðsíður á dönsku og norsku, um sögu Dana og sögu markaðshagkerfisins. Haukurinn fór síðan í fimm tíma próf úr þessu guðsvolaða efni í gær. Úrlausnir berast í lok febrúarmánaðar þannig að lesendum er bent á að kíkja við og við á síðuna ef þeir óska fregna af framgangi.

Haukurinn eyddi bróðurpartinum af tíma sínum á heimaeyjunni uppi í rúmi með háan hita og inflúensu. Af þeim sökum komst hann eigi í heimsóknir né teiti og leiddist það mjög. Einna sárast var að missa af gamlárskveldsteitum þeim sem Hauknum hafði verið boðið í, en Haukurinn vonar að félagar hans og vinir hafi samt sem áður náð að skemmta sér eitthvað það kveld.

Stuttu eftir að Haukurinn var farinn á stjá var síðan komið að heimferð. Haukurinn hélt því eilítið vonsvikinn af landi brott en samt sem áður við góða heilsu. Þegar heim var komið tók við ofannefndur lestur og getur Haukurinn upplýst lesendur sína um það að hann hefur séð u.þ.b. 3 tíma af sjónvarpi síðan hann kom heim - á þrem vikum. Bækur hafa verið hans líf fram til nú.

Ofsaveður geisaði fyrir stuttu hérlendis og komst Haukurinn endanlega að því að Danir kunna ekkert á veður. Það sem þeir nefndu fellibyl var af sama krafti og lægðin sem skall á Íslandi stuttu eftir áramót. Það sem er hins vegar minna fyndið er það að Danir virðast festa allt saman með UHU lími. Hér rifnuðu tré upp með rótum, hús misstu þök og húsveggir molnuðu vegna krafts veðursins. Götu þeirri er Haukurinn býr við var lokað í heilan dag meðan vinnumenn festu niður þakplötur, sem annars skreyttu götur Álaborgar. Eitt sló Haukinn sérstaklega, nefnilega það að vinnusvæði og nýbyggingar höfðu verið illa leiknar af veðurhamnum. Þannig virðast danskir verkamenn ekki huga að því að ganga sérstaklega frá lausahlutum á vinnusvæði sínu áður en haldið er heim í öl og lafskássu. Hauknum var eigi skemmt.

Haukurinn hefur talað!