þriðjudagur, janúar 21, 2003

Drífur á daga Hauksins!

Haukurinn heldur uppteknum hætti og þykist of upptekinn fyrir bloggið! Hvort það er satt eður ey verður látið liggja milli hluta, því ekki fór bakkafulla barnið með eldinn í brunninn.

Haukurinn hafði gaman af íslenskum mótmælum í ráðhúsi Reykvíkinga á dögunum. Einum manni var vikið úr sal borgarstjórnar fyrir ólæti og háreysti, og var sá maður Jónsi í Sigurrós. Ef Jónsi í Sigurrós er rótækastur mótmælenda virkjanaframkvæmda þá heldur Haukurinn að virkjendur þurfi litlar áhyggjur að hafa - enda er Jónsi ekki mikill uppivöðsluseggur!

Haukurinn hafði einnig gaman af því að téð mótmæli komu akkúrat í lokin á allri meðferð málsins, þegar allt var í raun klappað og klárt. Hvar voru mótmæl"endur" þegar málið var tekið til meðferðar á Alþingi? Hauknum er spurn? Einnig glöddu orð vinstri-grænna - eða trjáfaðmandi hippanna - Haukinn. Þeir kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, því það væri frumkrafa lýðræðisins að allir íbúar hefðu eitthvað til málanna að leggja. Haukurinn hélt í fávisku sinni að Ísland væri lýðræði, svokallað fulltrúalýðræði, þar sem borgararnir veldu/kysu sitt fólk inn á þing og léti þeim í té völdin til að taka ákvarðanirnar fyrir það. Hauknum finnst að menn verði að sætta sig við það að það er ekki bara hægt að velja og hafna af háborði lýðræðisins eftir því hvort maður er að tapa eða vinna!

Haukurinn skemmti sér konunglega við það að horfa á Íslendinga kjöldraga andfætlingana frá Ástralíu á HM í hnoðbolta í Portúgal. Haukurinn hefur hinsvegar fulla samúð með hnoðboltaköppunum sem nú hafa heila þjóð með of miklar væntingar á bakinu. Ísland best í heimi!

Haukurinn féll, ásamt 84 prósentum, í baráttu sinni við lagabákn Háskóla Íslands. Haukurinn siglir á önnur mið í kjölfar þessa.

Haukurinn hefur á ný hafið iðkun sína á hinni fornu og sívinsælu bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt Karate. Haukurinn stefnir á mikinn liðleika og aukinn styrk að lokinni önninni.

Haukurinn kveður að sinni en biður lesendur að hafa það í huga að þó svo Indverska atómbomban hafi lent á Íslandi þýðir það ekki að Ísland þurfi að lenda á Indversku atómbombunni!

Haukurinn hefur talað!