laugardagur, desember 11, 2004

Jóladagatal Hauksins

11. desember

Haukurinn er hérmeð kominn í tvo þriðju hluta jólaskaps, örlítið meira en hann bjóst við en þó ekki að fullu. Dagurinn í dag var nýttur til fullnustu, tvær og hálf blaðsíða eru komnar á blað um hið æsispennandi efni neo-funktionalisma og því var Haukurinn tilbúinn að verðlauna sig fyrir vinnuframlag sitt. Að loknum kvöldverði var haldið á hið Írska hús, þar sem Bóndinn og frú sátu við jólahlaðborð ásamt ribböldunum úr ástralska fótboltanum. Þangað mætti Haukurinn ásamt frú í örlitla stund, þó náði hann að slokra í sig einum köldum bjór ásamt frosnu ákavítisstaupi. Að því loknu þeyttu pörin sér inn í næsta strætisvagn á leið upp á Garð til árlegrar venju hópsins. Þannig er nefnilega mál með vexti á Bóndinn, Haukurinn og Nýbúinn hafa það fyrir venju að horfa á einhverja bestu jólamynd allra tíma – National Lampoons Christmas Vacation – fyrir hver jól.

Því var haldið yfir til Nýbúanna og snældunni smellt í tækið. Hlátrasköllin glumdu í íbúðinni þann tíma sem myndin rann sitt skeið og sátu allir eftir með tár gleðinnar í augnhvörum og spenning í þyndinni af hlátri. Fáir hlutir á jarðríki eru Hauknum jafn nauðsynlegir og að horfa á ofangreinda mynd fyrir jólin og eru lesendur hvattir til að sjá hana fyrir jólin.
Haukurinn kveður að þessu sinni með nokkrum vel völdum línum úr myndinni:
Clark: Where do you think you're going? Nobody's leaving. Nobody's walking out on this fun, old-fashioned family Christmas. No, no. We're all in this together. This is a full-blown, four-alarm holiday emergency here. We're gonna press on, and we're gonna have the hap, hap, happiest Christmas since Bing Crosby tap-danced with Danny fucking Kaye. And when Santa squeezes his fat white ass down that chimney tonight, he's gonna find the jolliest bunch of assholes this side of the nuthouse.
Ellen: What are you looking at? Clark: Oh, the silent majesty of a winter's morn... the clean, cool chill of the holiday air... an asshole in his bathrobe, emptying a chemical toilet into my sewer... [Eddie, in the driveway, is draining the RV's toilet] Eddie: Shitter was full. Clark: Ah, yeah. You checked our shitters, honey?
Eddie: Every time Catherine wouldrev up the microwave, I'd piss my pants and forget who I was for about half an hour.
Tær snilld.
Haukurinn hefur talað!

föstudagur, desember 10, 2004

Jóladagatal Hauksins

10. desember

Haukurinn hefur ákveðið að velta tækninni fyrir sér í pistli dagsins. Þannig er nefnilega mál með vexti að hann hefur hvorutveggja grætt og tapað á tæknilegum framförum í dag.

Bókakostur Hauksins var aukinn til muna í dag. Þannig var að Haukurinn átti eftir að eignast tvær ansi vígalegar bækur, sem settar höfðu verið á lista yfir prófsefni fyrir próf hans 18. janúar. Samanreiknað söluverð þessara tveggja bóka eru tólf þúsund íslenskar nýkrónur, og þar með nokkuð utan við efni Hauksins. Haukurinn brá því á það ráð að fylgja ráðleggingum samnemenda sinna og halda til nálægrar ljósritunarstofu, í eigu manns frá landi múrsins mikla, Kína, og hreinlega ljósrita skræðurnar. Haukurinn gjörði slíkt hið sama og situr eftir með bækurnar tvær fyrir minna en fjórðung söluverðsins. Upplýstir lesendur eru eflaust meðvitaðir um þá staðreynd að ofangreind iðja er með öllu óheimil, og lagalega refsiverð, en Hauknum er sem stendur slétt sama – hann situr eftir með bækurnar.

Vefdagbók Hauksins líður skort í dag, sökum tæknilegra örðugleika á vefsíðu birtanda tíðra skrifa hans. Því sker Haukurinn við nögl í dag og lætur hér við sitja.

Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, desember 09, 2004

Jóladagatal Hauksins

9. desember

Haukurinn hefur enn einn daginn í köldum húsakynnum Álaborgar háskóla. Lífsgleði hópmeðlima fer þverrandi með hverjum degi sem líður. Dagarnir eru svo lengi að líða, eins og Svala Bó söng forðum, og enginn endi er sjáanlegur á vinnunni. Haukurinn reynir samt að láta stefnuleysið ekki draga úr sér sístígandi jólaskapið. Hópurinn hefur ákveðið að deila verkum fyrir helgina þar sem þungaða stúlkan finnur fyrir verkjum. Frumburðurinn er víst farinn að banka all hressilega á dyrnar og það boðar víst aðeins eitt - fæðing er á næsta leiti.
Svo er komið að Haukurinn er farinn að svipast um eftir jötu, myrru og reykelsum, og alveg við því búinn að hann ásamt hinum tveim hópmeðlimunum þurfi að setja sig í spor vitringanna þriggja. Aðeins er laust hlutverk Jóseps, svo að vitnað sé í lagið góða "...Ó, Jósep, Jósep bágt á ég að bíða og bráðum hvarma mína fylla tár". Samt eru það víst aðeins konur sem gráta, að því er Haukurinn hefur heyrt.
Undur og stórmerki, gallinn blettótti er orðinn einsleitur - þ.e. skjannahvítur. Haukurinn hefur verið bænheyrður.
Haukurinn hefur talað!

miðvikudagur, desember 08, 2004

Jóladagatal Hauksins

8. desember

Magnþrunginn miðvikudagur mætti Hauknum þegar hann renndi í hlað skólabyggingar sinnar við Strandveg. Ófríska meyjan var mætt aftur í skotgrafirnar, endurnærð eftir átök sín við frumburðinn og með bólgna ökkla.
Hópurinn tók til við að takast á við þá ókind sem verkefni þess er orðið. Skipulagður hafði verið krísufundur með námsleiðbeinanda þeim sem hópnum hefur verið skikkaður rétt eftir hádegisbil og því biðu allir þess óþreyjufullir að fá hjálparhönd. Námsleiðbeinandi þessi hafði eigi getað mætt fyrr sökum þess að hann hafði kvöldið áður haldið til hefðbundins jólafrókosts í Kaupmannahöfn - og því vant við látinn fram eftir degi. Biðin gerði fátt eitt annað en að auka á stress og vanmáttartilfinningar hópsins - og eigi bætti sjálfur fundurinn úr skák, því þar fór námsleiðbeinandinn hamförum og skaut viðleitni hópsins á bólakaf. En líkt og hirðarnir forðum, þó hræddir væru, þá fundu hópmeðlimir fögnuðinn í boðskap leiðbeinandans og endasentust af stað í leiðréttingaleit.
Haukurinn hélt örlítið ringlaður heim en þó eigi niðurbrotinn. Seinna um daginn fékk hann útrás fyrir fólsku sína með því að banka duglega í samnemendur sína í Karate. Þó var þar einn hængur á, því Haukurinn hafði rekið augun í þó nokkra blá bletti í skjannahvítum karategalla sínum og því góð ráð dýr. Haukurinn hefur hafið klórlagningu, ef guð og hinir lofa þá reddast málin.
Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, desember 07, 2004

Jóladagatal Hauksins

7. desember

Hvað er meira danskt en að mæta einstaklingi á hjóli rétt fyrir níu á þriðjudagsmorgni með Carlsberg Elefant í hendi? Slíkt hið sama varð nefnilega á vegi Hauksins í morgun, þegar hann hélt til hópavinnu. Þegar þangað var komið mætti honum aðeins ein manneskja úr hópnum, þar eð einum seinkaði sökum slælegra vinnubragða í lestasamgöngum og ófríska stúlkan í hópnum var byrjuð að fá einhverskonar hríðir. Hauknum brá ansi hressilega við, því að það þýddi að verkefnavinnunni yrði að flýta og breyta. Hinir þrír einstaklingar hópsins yrðu því að taka á sig meiri ábyrgð og vinnu, á meðan að enn væri óvíst um framhald meðgöngu stúlkunnar.

Ljóst er að meyjan ofannefnda stefnir hraðbyri á að eignast jólabarn, og eykur það óðum á hátíðarskap Hauksins. Því að hvað er meira “jóla” en fæðing lík sjálfr meyfæðingunni úr bókinni góðu? Því þó svo að boðskapurinn hafði misst eilítið marks í voru nútíma verslunarsamfélagi þá er hann enn góður og gildur ef maður meðtekur hann. Fæðingar, myrra og búfénaður eru eitthvað sem við sem “sannkristið” fólk þekkjum vel, en þrátt fyrir að Kókakólaismuð áhrif verslunarjólanna hafi hrykkt eitthvað í stoðum hátíðarinnar er flestum ljós tilurð og tilgangur hennar. Nefnilega, þar sem barn fæðist, þar eru jól.

Á þeim nótum skilur Haukurinn við lesendur sína með örlítilli hugvekju.

Haukurinn hefur talað!

mánudagur, desember 06, 2004

Jóladagatal Hauksins

6. desember

Haukurinn er kominn í örlitla tímaþröng. Rúmar tvær vikur til jóla og enn á hann margt eftir að gera. Verkefnaskil eru sett í byrjun janúarmánaðar og próf eru skipulögð í miðjum sama mánuði. Jólahátíðin hefur hafið að tapa fyrri áunnum glans, þar eð Haukurinn sér fram á að eyða höfuðhluta hátíðarinnar í lestur og námsgagnayfirferð.

Mamma er inni í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat....Haukurinn inn’í herbergi situr alveg að lesa á sig gat. Jólalögin hljóma eilítið öðruvísi í höfði Hauksins í augnablikinu í ljósi ofannefndrar stefnu hátíðar. En söngur og gleði eru ennþá á borði Hauksins, þó í örlítið minna mæli en áður.

Karate gráðun lúrir einnig eins og skata handan við horn Hauksins, því 16. desember mun hann svitna, blóðgast og tárast í viðleitni sinni að halda rauðu belti sínu. Haukurinn hefur haldið bindindi sitt á gerjaða drykki hingað til, jafnvel þó svo að danirnir hafi markaðssett fjölmarga sérstaka jólabjóra. Haukurinn er stoltur af einurð sinni og er bjartsýnn á framhaldið.

Haukurinn hefur talað!

sunnudagur, desember 05, 2004

Jóladagatal Hauksins

5. desember

Annar í aðventu kallar og Haukurinn svarar. Morgunstund gefur gull í mund er einatt sagt, en Haukurinn á erfitt með að sjá það í augnablikinu. Lærdómurinn hófst um níu og það á sunnudagsmorgni – hver segir að nám sé ekki vinna?!?!

Hauknum og frú áskotnaðist kerti eitt, með dögum desembermánaðar árituðum á – þ.e. fram að aðfangadegi – og því var kveikt á því í byrjum mánaðar. Vandinn er aðeins sá að kvikindið brennur ótrúlega hægt og því er erfitt að fá það til að stemma upp á dag. Haukurinn telur það nánast eingöngu hægt ef kveikt er á því eldsnemma dags og drepið á því örlitlu áður en skriðið er undir sæng. Því hefur hann brugðið á það ráð að fylgja eigin ráðum og láta logann loga.

Kerti hafa einatt verið náttengd jólunum í sinni Hauksins og eru einnig ódýr lausn á jólaskrautsleysi hans. Spurningin er sú hvort að ekki sé kominn tími á að kaupa sitt eigið jólaskraut?

Haukurinn hefur talað!