sunnudagur, mars 28, 2004

Haukurinn - án klæða!

Klukkukrukk

Haukurinn hræðist ónáttúrulega hluti. Hann sér meinbug á því að fólk krukki í hinni náttúrulegu röð og innri reglu hlutanna. Slíkt á sér einmitt stað hér í landi dananna því að þeir stunda landlæga sjálfsblekkingu og breyta tímanum eftir því hvort er sumar eða vetur. Þessi svakalegi galdur á sér víst stað víðsvegar um hinn vestræna heim og telst eigi svakalegur. Haukurinn minnist þess að menn hafi verið gjörðir að plankasteik og brenndir á báli ef þeir voru eitthvað að krukka í því náttúrulega - sem reyndar taldi einnig til sín krufningar og fleira í þeim dúr. Haukurinn á erfitt með sig þar eð hann er vanur að gera slíkt hið sama og aðrir landar hans, nefnilega að sætta sig við þá staðreynd að með vetri þá fækkar sólskinsstundum og þær aukast aftur þegar nær dregur sumri. Hann sér engan gróða fólginn í því að bæta við sig klukkutíma á vetri einungis til þess að týna honum aftur þegar komið er sumar. Íslendingar eru vanir myrkum vetri og hafa aldrei séð tilgang með því að auka við hann tímum hér og þar. Vissulega má segja að við séum sér á báti hvað sólskin varðar, þar eð við hlaupum út í sandölum og ermalausum bol ef hitamælirinn sýnir 13 gráður á selsíus og glittir í sól. Heima þá eru það aðeins miðaldra karlar sem stunda sjöóböð og þá aðeins klukkan fimm að morgni á köldum vetrardögum. Síðan er hvort eð er sól allan liðlangan daginn á íslenskum sumrum þannig að það kemur á móti myrkum vetrum. En Haukurinn á samt sem áður erfitt með það að sætta sig við klukkukrukk.

Hjöllateiti

Hjörleifur Landsbyggðarböllur hefur haldið af landi brott og sett stefnuna heim á leið. Hann gjörir strandhögg seinna í dag, sunnudag, og því var vel við hæfi að kveðja hann með virtum á föstudagskvöld. Menn hófu leika snemma og héldu sem leið lá niður í miðbæ að kaupa vistir til grillveilsu þeirrar er hafði verið skipulögð. Fimm fílar hófu leiðangur en skjótt skiptist upp hópurinn og kvenpeningurinn fór í klæðakaup og skytturnar þrjár héldu heim til Hauksins. Þar var opnaður fyrsti karlinn og héldu menn svo í Kvickly. Þar voru skjótt drepnar vistir og för síðan áframhaldið. Þar eð mikill þorsti hrjáði menn var ákveðið að líta inn hjá vertinum á horninu og athuga hvað hann hefði uppá að bjóða. Hvarfið (The Wharf) varð fyrir valinu og settust menn þar niður klyfjaðir innkaupabögglum og kíktu í eina vel valda kollu. Þaðan var haldið heim til Landsbyggðarböllsins og vistum komið fyrir í geymslu. Þaðan var haldið á hjólfákum niður í Ofur Virkt (Aktiv Super) og keyptir tveir vel valdir kassar af miði. Þeim var komið fyrir í forláta kerru þeirri er Eyjólfur bóndi hafði drepið ekki svo allt fyrir löngu og honum falið það verk að knýja gripinn upp hæðina sem leið liggur heim á ný. Tíu mínútum síðar knúðu þrjár missveittar skyttur dyra og hófu grillundirbúning. Þegar allt klanið var samankomið var körlunum falið það verk að kveikja eldinn og tryggja það að hann myndi eigi deyja út. Verkið tókst vel og má því einkum þakka góðri skipulagningu - aukinheldur hafði bætst í hópinn og voru skytturnar orðnar fjórar. Kapparnir stóðu og dreyptu á miði og leystu alheimsvandann og héldu eldinum gangandi. Keti og grænmeti ýmiskonar var síðan bætt á eldinn og grillið hafið. Danir vissu ekki hvar á þeim stóð veðrið og störðu furðulostnir á þessa hugrökku víkinga sem sköruðu eld að sínu keti íklæddir lopapeysum og leðurstökkum í þriggja gráðu hita. Reynt var að koma ketinu inn í hús en kvenpeningurinn hafnaði blóðugri steikinni og töldu eigi hollt að eta rautt fiðurfé - vakti slíkt upp skiptar skoðanir. Ketinu var því haldið við eldinn ögn lengur og tóku síðan allir til matar síns. Að veisluhaldi loknu héldu menn áfram að súpa á miði og leysa alheimsvandann. Stúlkurnar tóku að sér að grilla bjúgaldim með súkkulaði í eftirrétt, en þar eð álpappírinn hafði klárast voru væntingar litlar meðal eldsmannanna. Sögur voru sagðar af svörtum bjúgaldinum sem myndu bragðast eins og kol og fleira í þeim dúr, en stúlkurnar afsönnuðu slíkar kenningar og buðu upp á hreinan veislukost. Sest var aftur og tekið að dreypa á veigum þeim er í boði voru. Stuttu fyrir miðnætti kvöddu hjónaleysin á Garði, sem að þessu sinni voru barnslaus og ákváðu því að halda heim á leið til þess að nýta sér friðinn og rónna til ýmissa leikja. Þynntist úr röðum veislugesta þegar Berglind fór heim og bar við vinnu næsta morgun. Haukurinn ákvað rétt fyrir miðnætti að nóg væri komið og hélt því ásamt spúsu sinni heim á leið. Dagur var vel að kveldi kominn og vel hafði til heppnast. Heill þér hund(rað)shöfðingi, megi heimför þín og sumarvist vera góð og gæfurík!

Tveir strákar, stelpa og innflutningsteiti

Laugardagsmorgun var erfiður fyrir all flesta í vinahópnum og var Haukurinn þar engan veginn undanskilinn. Kaffidreytill og kalkúnasteikur bættu skjótt úr því og Haukurinn var þar með orðinn fær í flestan sjó. Íslandsfarinn var kvaddur með virtum öðru sinni og síðan haldið heim á Garð að njóta eldamennsku heimasætunnar og gera sig tilbúinn undir komandi átök. Þannig var nefnilega mál með vexti að Hauknum ásamt fylgiliði hafði verið boðið í innflutningsteiti til Mr. Fritz, Dr Kriss og Evu. Þangað var haldið að loknum slipp og skrúbbi ásamt spúsu og bóndanum af Garði. Mikil var veisla og margt um mannninn. Danir, norðmenn og Íslendingar skemmtu sér saman og nutu veiga þeirra er Dr. Kriss hafði keypt daginn áður í ferð sinni niður að landamærum. Íslendingarnir fóru mikinn og hófu upp raust og gítar og skemmtu samkomunni. Augljóst er að slíkt er ekki almennt meðal hinna norðurlendinganna þar eð stofan tæmdist skjótt. Spurning er einnig hvort að Riggarobb með Pöpum sem sett hafði verið á fóninn stuttu áður hafi einnig lagt hönd á plóg. Landarnir syngjandi fluttu sig um sel og settust að í eldhúsi íbúðarinnar og bjuggu til syngjandi eldhústeiti. Þar heyrðist sungið samkurl af Bubba, Stuðmönnum, Spilaverki þjóðarinnar og einnig mátti heyra útgáfu teitisins af þjóðsöng landsins elds og ísa. Stuttu þar eftir ákvað Haukurinn,spúsa og Eyjólfur Bóndi að halda heim á leið enda þreytt eftir kveldið áður. Allt í allt var teitið hið skemmtilegasta og gaman að kíkja þar við.

Sama kveld var einnig tekið á því heima á skeri þar sem GF-limir, makar og velunnarar studdu öldunginn Jón Ágúst þar sem hann var orðinn kvartaldar að árum. Hauknum hafði verið falin veislustjórn en sökum þess að sprakk á dekki á bifreið hans var honum allskostar ómögulegt að láta sjá sig. Hann hafði hinsvegar undirbúið menn fyrir teitið nokkrum dögum áður og því átti ekki að koma að sök þó svo hann sæi sér ekki fært að mæta. Enn sem komið er hafa engar fregnir borist af veisluhaldi og þýðir það aðeins að vel hefur ræst úr því.

Bardaginn um Heimdall

Haukurinn þarf að skrifa prófverkefni fyrir næsta föstudag, á sama tíma þarf spúsa hans að gera slíkt hið sama, og stefnir því í það að nú mætist stálin stinn. Heimdallur er því miður aðeins einn en heimilisfólk er tvennt um hituna. Hvernig fer getur aðeins sagan leitt í ljós.

Haukurinn hefur talað!