föstudagur, maí 11, 2007

Rússkí karamba...?

Haukurinn spyr sig í ljósi ósigurs gærkvöldsins hvort að einhver hafi í raun haft fulla trú á góðu gengi Eiríks rauða í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva? Er fólk ekki farið að sjá ákveðna þróun myndast í þessari keppni síðustu ár?

Innlimun fyrrverandi austantjaldslandanna hefur breytt dýnamíkinni í keppninni gífurlega, þar sem hinn ört vaxandi pan-slavismi virðist algerlega ráða ríkjum. En spurningin er sú hvort að það sé virkilega svo slæmt? Getum við þá ekki bara hætt að taka þátt? Eða hreinlega búið til okkar eigin keppni: Söngvakeppni Norrænna Sjónvarpsstöðva, þar sem við gætum endanlega lagt dana- og svíagrýlurnar til hvílu.
Hauknum finnst eins og íslenska þjóðin haldi ákveðnu dauðahaldi í þessa keppni sökum ört vaxandi vinsælda svokallaðra júróvisjónpartýa. Myndi nokkur heilvita maður horfa á þessa hörmung af söngvakeppni ef ekki væri fyrir þessa þrælslyndu venju? Ekki nokkur maður getur haldið því frammi við Haukinn að söngvararnir, lögin eða skemmtanagildið séu í hæsta gæðaflokki í þessu afstyrmi.
Haukurinn hefur einnig aðra kenningu varðandi vinsældir Eurovision á Íslandi. Hún er sú að keppnin virðist geta náð tangarhaldi í spotta ofsa-þjóðerniskenndar íslendinga og togað fast og lengi. Þetta er spurning um 'okkur' á móti 'þeim'. Öfugt við venjulega þá finnst okkur samt sem áður ekkert að því að halda með norrænum félögum okkar, og við væntumst þess sama af þeirra hálfu.

Það virkar svolítið út úr kú að heyra Big Red kvarta yfir austantjaldsmafíu á sama tíma og hann hvetur fólk til að kjósa þá fulltrúa norðurlanda sem enn eru eftir í keppninni - en hey....þetta snýst um 'okkur' á móti 'þeim'.....

Haukurinn hefur talað!