miðvikudagur, desember 15, 2004

Jóladagatal Hauksins

15. desember

Haukurinn las það í morgunblaðinu í dag að æðstu ráðamenn íslenska ríkisins fá heldur betur tíðlegan jólaglaðning. Þannig er að kjaradómur hefur veitt þeim 3% launahækkun frá og með næstu áramótum. Haukurinn var glaður að sjá þessum góðu og gegnu þegnum þjóðfélagsins veitt slík búbót, en er jafnframt efins að bólgnar bankabækur æðstu manna láti mikið á sjá við hækkunina. Þannig fær t.d. hæstvirtur forseti lýðveldisins hækkun upp á 50 þúsund krónur - fer þar með úr litlum 1450 þúsundum í mun jafnari tölu, 1500 þúsund. Hauknum er spurn hvað forseti vor hyggst gera með þennan nýfengna auð sinn, og veltir jafnframt fyrir sér hver raunveruleg aukning launanna er eftir að ríkið hefur sjálft tekið skatt af þessari launahækkun. Haukurinn er sáttur við þá hugmynd að nú geti hr. Ólafur farið oftar á KFC og jafnvel fengið sér stóra sósubikarinn og stærsta kókið sem í boði er. Háttvirtur forsætisráðherra fær minni aukningu, eða sem nemur 26 þúsund krónum - þar með hækka laun hans úr 871 þúsundum í 897 þúsund. Hér hefði Haukurinn ekkert séð að því að rétta forsætisráðherra auka 3 þúsundkall á mánuði - 900 þúsund er miklu flottari tala og þá getur hann keypt sér blandara í Húsasmiðjunni fyrir 2495 kr og átt pening fyrir pylsu og kók á eftir.
Haukurinn óskar þessum heiðursmönnum til hamingju með veitta launahækkun og jafnframt góðra jóla - hann þakkar þeim fyrir veitta þjónustu á árinu og biður þá vel að lifa.
Haukurinn hefur talað!
P.S. Hauknum þótti vænt að sjá að SPRON ákvað að veita um einni milljón króna til Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir jólin - það er víst til fátækt fólk á Íslandi líka.......skrítið.....