miðvikudagur, janúar 24, 2007

Pabbi minn kallakókið sýpur
hann er með eyrnalokk og strípur
og er að fara á ball,
hann er að fara á ball.
Týnda kynslóðin, Bjartmar Guðlaugsson
Fyrirfinnst meiri snilldartexti í víðri veröld? Hauknum er spurn þar sem hann situr við skriftir án eyrnalokks og strípna, eingöngu með kaffigrút seiðandi í maganum. Margt hefur drifið á daga Hauksins síðustu misseri; langdregið prófverkefni er komið í höfn, jólahátíð yfirstaðin og eitt stykki drengur fæddur.
Þrátt fyrir fyrri loforð hyggst Haukurinn ekki klára yfirferð sína yfir jólasveinana einn og átta, sem samt sem áður eru þrettán - það er þangað til að einhver markaðssetningarfræðingurinn nær að pota inn nýjum McJólasvein. Haukurinn er kominn yfir þá þörf að þurfa að fara yfir og flokka sveinana - þeim lesendum sem gremst það verða að sætta sig við orðinn hlut og bíða næstu jóla.
Prófverkefni Hauksins í Organisationsteori uppfyllti öll þrjú ellin, þ.e. það varð langt, leiðinlegt og lélegt. Haukurinn verður sáttur ef hann nær kúrsinum.
Líkt og tekið var fram í fyrri skrifum þá er Drengur Hauksson fæddur. Tökur hófust á öðrum jóladegi og lauk að morgni þriðja jóladags. Hann er frekar stór, rauðbirkinn og ákveðinn. Sem stendur þá fer allt heimilishaldið fram eftir hans skilyrðum, sem þýðir að föt eru þvegin tvisvar á dag, skipt er um föt tvisvar til þrisvar á dag og nætursvefntímar eru frá 22:00 til 01:00 og svo frá 02:30-08:00. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er hann alger snillingur.
Haukurinn hefur talað!