fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Heyr á endemi!

Haukurinn vill byrja á því að biðjast afsökunar á þeim tíma sem hefur liðið frá síðasta bloggi. Haukurinn hefur þó góða afsökun, því hann hefur verið á ferð og flugi. Bókstaflega! Haukurinn fór nefnilega til lands elds og ísa, heim í heiðardalinn, til þess að vera viðstaddur fimmtugsafmæli föður síns. Haukurinn hyggst nú útleggja ferðina fyrir lesendur.

Föstudaginn 14. nóvember var lagt af stað frá Álaborg klukkan 5:30 að staðartíma. Setið var í lest í fimm tíma eða þar til lestin nam staðar við Kastrup flugvöll í Kaupmannahöfn. Þegar þangað var komið var hlaupið að innritunarborði Iceland Express, sem merkilega nokk var að innrita farþega á sama stað og Algerian Airlines. Hauknum þótti þetta nokkuð gamansamt þar sem þessi flugfélög eiga fátt sameiginlegt, annað en það að vera hreinlega ýtt út í útnára flugstöðvarbyggingarinnar. Haukurinn og frú rituðu sig inn og héldu svo af stað inn á transit svæði flugstöðvarinnar (transit er tækniorð sem Haukurinn lærði við vinnu sína á Keflavíkurflugvelli, það táknar svæðið þar sem farþegarnir sitja og bíða).

Haukurinn gerði sér fyllilega grein fyrir því að peningar eru ekki eitt af því sem hann á nóg af og því var lítið sem ekkert verslað í tax-free. Þegar þessum agnarsmáa verslunarleiðangri var lokið var haldið um borð í flugvélina. Hauknum til mikillar gleði hafði honum og konunni verið skipað sæti í þriggja sæta röð, þar sem þau voru einu farþegarnir. Því var ekkert vandamál að teygja úr sér eða stökkva á fætur þegar þannig lá á Hauknum. Flugið sjálft var svo sem ekki í frásögur færandi, fyrir utan það að ef maður sofnar ekki þá eru þrír og hálfur tími fremur lengi að líða.

Haukurinn lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan tvö að íslenskum tíma og hljóp í gegnum flugstöðina á mettíma. Það að hafa unnið í flugstöð drepur allt gaman við það að ferðast, því að Haukurinn nennti varla að stöðva í tax-free.

Þegar út var komið var hlaupið beint í fangið á Kristmundi hvíta og keyrt í bæinn. Þar var hittur fyrir frumburðurinn hans og Höllu tvíbura og snædd súkkulaðikaka. Eftir stutt stopp var haldið til ömmu Hauksins í gúllas og sturtu. Þaðan var svo loks haldið af stað í stórafmælið.

Faðir Hauksins hafði engan grun um það að hann væri á leiðinni og því kom það honum í opna skjöldu að fá hann í fangið í miðju afmælinu. Karlinn varð hreinlega klökkur og orðlaus. Við tók stórt verk hjá Hauknum, því að hann og bróðir hans höfðu verið beðnir að sjá um veislustjórn. Kvöldið leið hratt því mikið var að gera, þannig að um ellefu leytið var afmælið fært í heim til foreldra Hauksins. Þar tók við drykkja og veisluhöld til u.þ.b. fjögur um morguninn. Um það leyti henti Haukurinn sér í bælið og svaf svefni hinna réttlátu.

Næstu daga tók við kapphlaup af heimsóknum og reddingum. Haukurinn hitti fyrir GF-félaga í teiti á laugardagskveld og á sunnudegi í einhverju sem væri vægt lýst sem "massa"fótbolta. Haukurinn náði að gæða sér á soðnum fisk, lambahrygg (ömmu-style) og íslenskum pylsum. Svo var einnig hinum ýmsu fjármálum kippt í liðinn.

Á þriðjudagsmorgni var svo heimferðin endurtekin, nema í öfugri röð. Þannig að Haukurinn og frú lentu á aðalbrautastöð Álaborgar að kveldi þriðjudags, þreytt og með rasssæri eftir alla setuna.

Haukurinn skemmti sér konunglega og hlakkar til heimferðarinnar um jólin!

Haukurinn hefur talað!