fimmtudagur, júlí 14, 2005

Heill sé forseta vorum, húrra, húrra, húrra, húrra!

Haukurinn er sjaldan allt að því orðlaus. Samþykktir mannanafnanefndar sem birtar hafa verið á síðustu misserum hafa hins vegar valdið því að Haukurinn veit hreinlega ekki í hvern fótinn hann á að stíga. Eins og það er gott og blessað að foreldrar fái að ráða nöfnum barna sinna, þá er töluverð ábyrgð fólgin í nafngiftum, t.d. má ætla að erfitt væri fyrir drenginn Satan og stúlkuna Axel að fóta sig í grimmum og ófyrirgefandi heimi barna. Því fer það svolítið fyrir brjóstið á Hauknum þegar fólk, líklegast sökum stundarbrjálæðis, ákveða að gefa börnum sínum þvílík "nöfn".

Hauknum féll allur ketill í eld þegar hann heyrði af nokkrum þeim nöfnum sem samþykkt voru á dögunum og hefur því ákveðið að spá fyrir um nafn forseta Íslands, ef það þá verður ekki orðið að minnsta fylki Sameinaðrar Evrópu eða Bandaríkja N-ameríku. Haukurinn, líkt og völvan góða gerir við hver áramót, spáir því að drengurinn Bambi Ljósálfur Ninjuson verði kosinn forseti Íslands 2060. Haukurinn gefur sjálfum sér álíka líkur og hinni fyrrnefndu völvu.

Haukurinn hefur talað!