fimmtudagur, mars 25, 2004

I'm tha Skatman!

Haukurinn er að lenda í vandræðum ýmiskonar varðandi skattaframtöl og er einungis við það að sakast að Haukurinn lét til leiðast og flutti búferlum til meginlands Evrópu. Áður en lesendur setja af stað einhverskonar söfnunarherferð fyrir Haukinn þá verður að taka fram að eigi er um eiginleg fjárhags vandræði að ræða, frekar vandræði hvað skil varðar. Haukurinn hefur fengið bréf frá dönskum skattayfirvöldum sem inniheldur óteljandi núllfærslur og tilkynnir Hauknum að hann eigi öngva peninga né eignir hérlendis - sem reyndar er hlutur sem Haukurinn gerir sér grein fyrir. Í ofanálag þá er landsátak íslenskra námsmanna (Lín) að heimta ýmiskonar pappíra frá dönskum og íslenskum yfirvöldum sem sönnun fyrir því að Haukurinn sé eigi að auðvelda tilveru sína erlendis með því að vinna sér inn peninga eða eitthvað þess háttar. Haukurinn var að vona að hann gæti hreinlega bara slegið á þráðinn til heimalandsins og tilkynnt lín að hann byggi við sult og seyru og ætti enga peninga. Það kom á daginn að slíkt er eigi næg sönnun og verður Haukurinn því að takast á við skrifstofubákn beggja landa. En nóg um það!

Haukurinn hefur átt ansi hreint rólega viku hér á flatlendinu við Limafjörðinn. Farið var í teiti síðasta föstudag þó svo að Haukurinn hefði verið búinn að ákveða það að eiga rólegt kvöld heima. Þannig var nefnilega mál með vexti að ektakvinna Eyjólfs bónda á Stúdentagarði fékk lausn úr gúlaginu og gat því komið með í teitið. Við þetta æstist Haukurinn upp til muna og hóf að setja sig í gírinn. Farið var til Jöste og Berglindar, sem búa við hliðina á háskólasvæðinu sem liggur u.þ.b. hálftíma strætóferð fyrir utan miðborg Álaborgar. Þar var fámennt en góðmennt og tóku menn á í drykkju og dansi. Eftir teitið var síðan ákveðið að halda heima á leið þar eð klukkan var að slá fjögur og því gengið af stað. Þó svo að túrinn hafi víst tekið vel á hálftíma fannst Hauknum tíminn líða fljótt. Fólki var fylgt heim í bæli og síðan tóku Haukurinn og frú híruvogn heim á leið.

Haukurinn sér fram á heilmikla endurtekt komandi föstudag þar er haldið verður kveðjupartí fyrir Landsbyggðarböllinn. Drengurinn sá hyggst flytja búferlum aftur heim á forna grundu og því sést hann eigi fyrr en nær dregur sumri. Í plönunum er að halda grillveislu og því er Haukurinn farinn að leggja hausinn í bleyti og kjötið í lög.

Haukurinn fór á þriðjudag á æfingu í áströlskum fótbolta og var að þessu sinni eini útlendingurinn á staðnum þar eð hvorki mættu íslenskir félagar hans né ástralskir meðspilarar. Haukurinn vonar að á því verði breyting í kveld þegar menn mætta aftur illúðlegir til leika.

Haukurinn hefur talað!