mánudagur, nóvember 27, 2006

Það vantar spýtur og það vantar sög,
það vantar málningu og fjörug lög.
Það vantar spýtur, Ólafur Haukur Símonarson.
Haukurinn hefur náð a.m.k. 75-86% af áætlun sinni fyrir helgina. PARKETlagningin gekk ekki alveg eins og í sögu, en þó nokkuð vel enda Haukurinn með eðla vinnumenn að störfum - þó svo þeir væru ekki af pólsku bergi brotnir. Greitt var fyrir aðstoðina með hádegisverðum, góðum húmor og einum håndværkerøl eða tveim. Afslöppunin sem Haukurinn hugðist einnig leggja fyrir sig gekk þó ekki eins vel og annað þessa helgi, þar eð lítill tími var til slíkra athafna þegar öllu var á botninn hvolft.
Haukurinn sér engan veginn fram á lát á framkvæmdum hér á Garði, enda þó nokkru enn ólokið í innréttingum og öðru slíku. Einnig sér Haukurinn fram á sér verði launaður parketlagningargreiðinn með álíka verki í þar næstu viku fyrir einn ofangreindan vinnumanninn. Þar eð nú falla öll vötn til parketlagningar eru kostir Hauksins fáir aðrir en að þekkjast boðið.
Haukurinn fór einnig í myndatöku fyrir stuttu, þó eigi með hans vilja. Haukurinn fékk að léni bifreið bóndans á Garði - forláta franska iðnaðartvígengisvél að Haukinn minnir - og hélt til bæjar. Þegar svo Haukurinn var á heimleið, kom hann að umferðarljósum sem hann sá að voru að fara skipta litum. Haukurinn ákvað því að stíga örlítið niður á eldsneytisinngjöfina og ná grænu ljósi - einkum vegna þess að Hauknum finnst það fallegra og glaðlegra. Hauknum tókst ætlunarverk sitt, en fékk að launum fyrrnefnda andlitsmynd frá stjórnendum laga og reglna hér í Álaborg. Bóndinn á Garði mætti síðan með myndina ásamt greiðsluseðli til Hauksins glaðhlakkalegur að vanda og lét skjölin Hauknum í té. Haukurinn hefur ákveðið að verða að ósk lögreglunnar og greiða fyrir myndina.
Mörgum lesendum finnst kannski Haukurinn hafa þarna fengið makleg málagjöld, enda mikið fyrir sektir og slíkt, en Haukurinn hyggst taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti og halda sínu striki.
Haukurinn hefur talað!
P.s. Haukurinn hefur fengið nokkrar orðsendingar í skilaboðaskjóðu sína tengdar parketlagningu. Haukurinn hefur ákveðið að aðstoða þessa einstaklinga, svo að þeir fái skilið hvað um er að ræða. Parket er tré, sem er nokkuð augljóst. Haukurinn keypti parket sem búið er til úr tré, þó svo það sé í öðru formi. Ergo, Haukurinn keypti parket. Q.E.D.