þriðjudagur, október 24, 2006

Fyrsta grein: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Önnur grein: Ekkert dýr má borða annað dýr.
Marteinn Mús, Dýrin í Hálsaskógi.
Haukurinn veltir oft fyrir sér séreinkennum Danmerkur; hér er til dæmis mikið um áfengisþamb, einnig er hér leyfilegt að stunda dýrakynlíf og svo mætti lengi telja. Samt sem áður þá koma einatt upp fréttir sem fá undirritaðan til að efast all stórlega um geðheilbrigði hinnar dönsku þjóðar. Fréttir á borð við þessa hafa verið sem vatn á myllu Hauksins þegar um ræðir sérstöðu hins danska þjóðveldis á heimsvísu.

Haukurinn hefur einnig í síauknum mæli farið að efast um geðheilbrigði eigin þjóðar og eigin landsmanna, einkum hvað varðar hversu líkir “frændum” okkar í vesturheimi íslendingar eru orðnir. Lesendur vita líklegast hverja Haukurinn á við, þ.e. þá sem nýverið fluttu út úr leiguíbúðinni og skildu við hana í talsverðri niðurníslu, nánast eins og ef um vanþakklátan ungling hefði verið að ræða.

Sjaldan launar kálfur ofeldið, því eftir að hafa fengið eitt stykki álverssamning í skaðabætur hafa Íslendingar svo hafið hvalveiðar á ný. Eflaust á þetta eftir að valda þó nokkrum deilum veldanna í milli, þó svo að eins og vitað er þá hafa téðir “frændur” vorir verið heimsins stærsta hvalveiðiþjóð síðustu ár. Fyrrnefnd veiði fer fram á þeim forsendum, að ráðamenn í BNA kveðast vilja bæta fyrir slæma hegðun fyrr á öldum í garð hinna innfæddu þjóðflokka sem guldu fyrir útþenslu og ofbeldi hvíta mannsins.

Samt sem áður er það stefna amerískra ráðamanna að ekki eigi að veiða hvali, þ.e. ef um er að ræða aðra en þá sjálfa. Líkast til hefur þessi skoðun verið á þeirri forsendu að þeir hvalir sem þeir þekkja sjálfir eru oftast lokaðir af í hreinum körum, umkringdir sílspikuðum ameríkönum með skyndibita í hendi og einhverft uppteknir við þá iðju sína að hoppa í gegnum hringi og skvetta vatni yfir alspikmúgann, við hávært undirspil Kenny G og Wings.

Hauknum féll því nánast allur ketill í eld þegar hann hafði veður af því, að á landi elds og ísa hefði nýverið verið stofnuð heimasíða fyrir gæludýr landsmanna. Haukurinn skammast sín – einkum fyrir hönd gæludýranna – því hvers eiga þau að gjalda að eiga slíka eigendur. Tískusmáhundar í Louis Vutton töskum klæddir í fínustu klæði hafa nú fengið enn frekari staðfestingu á eigin sætleika og yndi, í gegnum undur og stórmerki veraldarvefsins.

Danir mega þó eiga það að þeir leyfa útlendingum bara að hafa mök við sín dýr, en ekki klæða þau upp og auglýsa eins og þau séu einstaklingar. Heimurinn er á hraðri leið í áttina að fullkomnri úrkynjun þegar heilasnauðir vesturlandabúar eru farnir að persónugera íbúa dýraríkisins. Spurning hvort að ekki sé fyrst hægt að persónugera þurfalingana í Darfur eða jafnvel þann fjölda okkar eigin landsmanna sem ekki geta haldið jól án þess að fá fátækrahjálp frá Hjálparstofnun Kirkjunnar hvert ár. En nei, blessuð dýrin hafa forgang – þó ekki þessi skítugu, vitlausu sem við djúpsteikjum, hökkum og breytum í fars.... þau mega alveg missa sín.