þriðjudagur, desember 19, 2006

Í sumar það er satt
þá leið hér tíminn skelfing hratt
og þau flugu hjá í snatri
já fuglarnir og sólin
en nú er þetta breytt
það bara gerist ekki neitt
og tíminn rótast ekkert
og aldrei koma jólin.
Ég hlakka svo til, Svala Björgvinsdóttir
Haukurinn heldur áfram þar sem frá var horfið við útlistun sína á þeim öldnu og þræl-glæpóttu sveinum er tengdir eru við jólahátíðina. Þið vitið, þessir sem læðast inn í herbergi barnanna á nóttunni og launa þeim með góðgæti í skóinn.
Fimmti paurinn, var einn hinna mörgu sleikjara sem príða þennan valinkunna hóp sveina, betur þekktur sem Pottasleikir. Fyrr á öldum þekktist hann þó undir öðru nafni, Pottaskefill. En líklegt er að hraðfallandi málkunnátta hinnar íslensku þjóðar hafi valdið því að nafnið breyttist, eða þá það að skefillinn fór hreinlega að sleikja pottana. Á heimili Hauksins hefur lengi verið til rafmagnstæki sem sá um slíka iðju, þ.e. að hreinsa matrestar úr pottum, nefnilega uppþvottavél. Þar eð Haukurinn er nú aðeins fátækur námsmaður, þá er hann hin eina virka uppþvottavél heimilisins - sem sagt hinn einni og sanni Pottaskefill/sleikir.
Sjötti sveinninn líkt og bróðir hans sem á undan fór er margrómaður sleikjari, betur þekktur sem Askasleikir. Jóhannes frá Kötlum, lýsti því þannig að fyrrnefndur hefði rekið hausinn undan rúmum fólks og sleikt þá aska sem hann náði í. Vonandi fyrir hann, voru það eingöngu askar sem hann nældi sér í til að sleikja en ekki næturgagnið sem einatt lá við rúmið forðum.
Sjöundi kom garpur, sem þótti nokkuð klúr. Hurðaskellir heitir sá, og læddist hann um hús í rökkrinu og skellti hurðum til þess eins að halda vöku fyrir íbúunum. Heppilegt að hann hrelldi íslendinga en ekki frændur þeirra ameríkumenn, þeir hefðu hreinlega skotið hann dauðann á staðnum og gengið stoltir frá verkinu. Frændi Hurðaskellis, kókakóla jólasveinninn í ameríku gengur nefnilega ekki um í vaðmál, heldur sérstyrktum skotheldum búning hönnuðum af bandaríska hervaldinu - en þó að hann sé rauður, þá er hann ekki kommúnisti.....þó svo að hann ferðist um heiminn og gefi öllum jafnt.....
Á eftir hávaðagerpinu og sleikjurunum kom svo besti vinur mjólkursamsölunnar, Skyrgámur. Áður fyrr hét sá Skyrjarmur, en fór í nafnabreytingu rétt eftir miðbik síðustu aldar þar sem fólk var hætt að skilja hvað í nafninu fólst. Sá hinn sami braut sér leið í kerin í búrinu, og hámaði í sig skyrið góða þar til hann "stóð á blístri og stundi og hrein." Hver kannast ekki við það? Haukurinn eyddi drjúgum hluta sumardvalar sinnar á ættjörðinni við þessa iðju, þ.e. skyrát, og hafði gott af enda varan ill fáanleg hérlendis.
Eftir eru fimm sveinar, og verður gert grein fyrir þeim síðar. Haukurinn er farinn á pósthús með jólakort og til slátrara að sækja almennilegan hamborgarahrygg.
Haukurinn hefur talað!