fimmtudagur, nóvember 21, 2002

Bla.....,Bla....., Blaður dagsins!

Haukurinn fór á dögunum að ná sér í miða á tónleika Ösku og Kaldspils. Líkt og oft áður þá væri það ekki í frásögur færandi ef ekki hefði staðið svo á að Haukurinn hefur verið kvefaður undanfarna daga. Hann mætti tímanlega fyrir utan Skífuna í Kringlunni og gjörði sig tilbúinn til að há mikla baráttu við nemendur HR og VÍ sem voru komnir í hrönnum í sama tilgangi. Haukurinn kom sér fyrir aftast í röðinni og tókst innan mínútu að fækka um einn í röðinni. Þannig var nú mál með vexti að aftast í röðinni stóð eldri kona og bjóst Haukurinn við því að hún væri þar aðeins í þeim tilgangi að kaupa miða handa barnabörnunum svona fyrir jólin eða eitthvað svoleiðis. Þegar Haukinn bar að garði sneri kerla sér að þessum háa, myndarlega unga manni og spyr "Er eitthvað að gerast hér? Af hverju er þessi röð?". Haukurinn svaraði því til að til stæði að halda tónleika og því væri téð röð til staðar. Kerla hváði og spurði á ný "Hverjir eru að halda tónleika?". Haukurinn sá sig knúinn til þess að gjöra það kunnugt fyrir kerlu og tók einnig fram að hljómsveitirnar væru mjög vinsælar. Eitthvað fát virtist koma á kerlu því hún tvísteig á staðnum og virtist vera eilítið áttavillt. Haukurinn ákvað að ýta ekkert á greyið og hélt því tungu. Kerla hóf þá raust sína að lokum og sagði "nú...ég hélt að fólkið væri bara að bíða eftir því að búðirnar opnuðu!?!".

Hauknum fannst þetta bera keim af því sem honum skilst vera einkennandi fyrir Breta, nefnilega ef þú sérð röð þá endilega að koma sér kyrfilega fyrir aftast í henni því þú veist aldrei hvað bíður á hinum enda raðarinnar!

BTW

Haukurinn er að reyna að venja sig á það að blogga oftar en á einhvern veginn erfitt með að setjast niður daglega og bulla. Hauknum skilst það af æðstapresti bullsins á Íslandi, forseta Ísalands, að ef eigi birtist bull a.m.k. annan hvern dag þá teljist blogg manns eigi þess virði að kíkja á það. Haukurinn vonar að lesendur hans sætti sig heldur við gott innihald frekar en magn!

Haukurinn hefur talað!