fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Veðrið það er gott í dag,
tilvalið að láta eitthvað vaka í því.
Sálin Hans Jóns Míns
Haukurinn er fastur í auga stormsins, þ.e. snjóstormsins mikla 2007 samkvæmt dönskum fréttastofum. Án þess að missa sig í þjóðarstolti og þjóðrembu, einkum yfir hæfileikum landans til að geta lifað við meira en 20 sentímetra af snjó, þá verður að viðurkennast að Danir eru hreint út sagt aumkunarverðir þegar snjókoma er annars vegar. Haukurinn leggur til að þeir missi stöðu sína sem eitt norðurlandanna og verði aftur hluti af hinu sameinaða þýska fylkjasambandi.

Það að það falli eilítil drífa á engan veginn að þýða algera kjarnabráðnun í samfélaginu, einkum og sér í lagi þegar um er að ræða land sem liggur í nirðri helming jarðkúlunnar. Sem stendur eru allflestir skólar, dagvistanir og aðrar stofnanir, ásamt strætisvögnum og álíka þjónustum lokuð vegna veðurs. Fólk hættir sér ekki út fyrir húsins dyr af ótta við að verða úti í 'bylnum' og laganna verðir ráðleggja ökumönnum að halda sig bara heima og vera ekkert að aka um göturnar að óþörfu - sem þó er raunar skiljanlegt þar sem borgarstarfsmenn ryðja aðeins götur þrisvar á dag.

Þegar húsvörðurinn gekk fram á Haukinn fyrr í dag, þar sem hann gróf göng í gegnum snjóinn í garðinum til þess að geta trillað barnavagninum upp að stofuglugganum, átti hann vart orð yfir dugnaði og hetjumóð Hauksins. Haukurinn kvartaði eigi, barði sér á bringu og klauf skaflana vopnaður forláta snjóskóflu sinni - sem þó var keypt til billig pris.



Haukurinn ætlar að hætta sér aftur út, jafnvel til þess að fara í göngutúr með drenginn í vagninum þ.e. ef hann þarf ekki að eyða öllum tímanum í áframhaldandi baráttu við skaflana.

Haukurinn hefur talað!

P.s. Liverpool vann Barcelona í gær. Svoldið annað en að tapa fyrir PSV eða vinna með illþefjandi svindltaktík móti Lille. Við erum bestir, það verður hreinlega að segjast!