miðvikudagur, júlí 06, 2005

"Er þetta langt? Nei, svona dagleið....."

Haukurinn kveður sér hljóðs úr horni. Fyrir rúmri viku síðan hélt Haukurinn frá borginni við Limafjörðinn áleiðis til austfjarða, með eilítilli viðkomu á höfuðborgarsvæðinu. Haukurinn er ýmsu vanur en ferðalagið hefur í heild sinni verið allt hið skringilegasta. Lestarferðin frá Álaborg til Kaupmannahafnar var með eindæmum ljúð og löðurmannleg, og því bjóst Haukurinn við flugferðinni frá helvíti þegar haldið yrði til Keflavíkur. Þegar í loft var komið var Hauknum það ljóst að þar eð ferðin virtist ætla að verða hin besta, væri það dagljóst að einhverskonar atburður yrði til þess að vélin myndi lenda í Færeyjum, Grænlandi eða á einhverjum útnára í norðri. Úr því varð eigi og því stóð Hauknum ekki á sama þegar ekið var frá úthverfi varnarstöðvarinnar, Keflavík, áleiðis út á Seltjarnarnes. Það var fyrst eftir að Haukurinn var kominn heim í frændgarð sinn, eða öllu heldur foreldragarð, að það rann upp fyrir honum hversu frábært ferðalagið hefði verið.

Haukurinn tók því að reyna að njóta lífsins og skipulagði áframhaldandi ferðalag á austfirði. Fyrr en dagur fagur rann, fann Haukurinn hvernig hann náði allur að slaka á og bjóst við álíka ferð og hann hafði tiltölulega nýlokið. Ljóst varð um morguninn að svo yrði ekki. Vindkviður, sem í Danmörku teljast til hvirfilbylja eða annars ofsaveðurs, léku um höfuðborgarsvæðið og gáfu til kynna að flugferðin yrði skrautleg. Fyrri hluti ferðar var í lagi, enda Haukurinn orðinn sjóaður í flugferðum og kallar því aðeins tvær konur ömmu sína. Þegar nær dró áætlunarstað, og eftir að flugstjórinn hafði gjört farþegum það kunnugt, hófust ein hin mesta ókyrrð í lofti sem Haukurinn hefur lent í. Vissulega vart nefnandi ef um rússíbana væri að ræða en þar eð Haukurinn var staddur í járngám í nokkur hundruð metra uppi í lofti, stóð honum hreint ekki á sama. Eftir hopp, hí og trallala náðist loks lending og glaður, en hristur, gekk Haukurinn frá borði.

Þegar Haukurinn hafði kveikt á farsíma sínum, hrundu inn smáskilaboðin (sms fyrir þá sem ekki vita). Ein þeirra stóðu nokkuð út úr hópnum, nefnilega þau frá konunni þar sem hún afsakaði það að geta ekki sótt Haukinn þar eð ófært væri gegnum Fagradal, dal þann er liggur frá Eskifirði til Egilsstaða, vegna aurskriðna. Haukurinn yrði því að bíða fregna og jafnvel finna sér gistingu næturlangt. Haukurinn af annálaðri rósemi sinni tilkynnti konu sinni að þetta væri síðasta skipti sem hann myndi nokkurn tíma ferðast til austfjarða. Síðan þegar skapið hafði lagast hafði Haukurinn fullt í fangi með að afsaka þessi orð sín og draga þau skilyrðislaust til baka. Hvað um það. Haukurinn var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að gista hjá bróður tengdamóður sinnar næturlangt og hélt síðan með langferðabíl niður á firði.

Sem sagt Haukurinn getur eigi gripið hlé (Can't catch a break). Dvölin á Eskifirði hefur samt sem áður algerlega eytt minningunni um ferðalagið ógurlega úr minni Hauksins og hlakkar hann mikið til sumardvalarinnar.

Haukurinn hefur talað!