fimmtudagur, september 13, 2007


Haukurinn hefur síðustu dægur verið að velta fyrir sér þeim áhrifum sem hin margumtalaða kynlífsbylting hefur haft á almenna dægurmenningu í hinum vestræna heimi. Flestir hafa hampað téðri byltingu sem verandi af hinu góða, þar sem frelsi einstaklingsins hefur verið aukið til að betrumbæta eigið kynlíf, skapa umræðu um kynferðismál og þar með uppræta ýmsar ranghugmyndir og kreddur sem tengdar eru kynferðismálum.

Samhliða þessu hefur kynlífsbyltingin, að mati Hauksins, haft í för með sér ákveðna kynferðisvæðingu hins dags daglega lífs. Á hverjum degi dynja á okkur kynferðislega tengdar ímyndir, hvort eð er í textum dægurlaga eða myndum auglýsinga. Haukinn rekur minni til bæklings frá Smáralind sem olli þónokkru fjaðrafoki í umræðunni á Íslandi fyrir stuttu, þar sem einmitt stóð styr um hvort auglýsing þar í væri of kynferðisleg eður eigi.

Haukurinn gerir sér ljóst að þessi umræða er vandmeðfarin sem og byggir á gömlum grunni. Sést það best á því að löngu áður en Al Gore gerði sér grein fyrir illum áhrifum gróðurhúsaáhrifanna stóð kona hans í þó nokkru stappi við það að sýna fram á óheilbrigði dægurlagatexta um miðjan níunda áratuginn. Listamenn þess tíma þurftu að fara fyrir alríkisnefnd og bera vitni um eigin textasmíð. Ennfremur fékk fólk fyrir hjartað þegar Elvis skók mjaðmirnar eða þegar Bítlarnir sungu um að halda í hendur ungmeyja.

Það sem einkum kveikti á áhuga Hauksins á að tjá sig um þetta efni var dálkur í metroexpressen. Þar ræddi áhyggjufull móðir tíu ára stúlku hverskyns áhrif það hefði á framtíðarvonir dóttur hennar að hrærast um í menningu þar sem Kisulórudúkkurnar hampa því að best sé að hoppa um á nærfötunum og syngja um hvort þær séu ekki miklu betri kostur en núverandi unnustur hlustenda. Haukinn rekur minni til grínista sem sagði að öll þessi sjálfshjálp og uppbygging á heilbrigðum manneskjum væri ekki endilega af hinu góða, því hvaðan myndu allir strippararnir sem dælduðu sjálfsímyndina og föðurvandamálin þá koma?

Þegar kostir og gallar kynferðisvæðingar eru metnir, verður einkum erfitt að sjá hina augljósu kosti þessa fyrir börn og unglinga. Þessir einstaklingar standa frammi fyrir mjög mótandi áhrifum sem hafa áhrif á hver þau eru, verða og hvernig þau hafa áhrif á umhverfið í kring. Sum áhrifin eru áberandi, t.d. skonsuskot af Paris, Britney, Lindsey og hvað þær nú heita, á meðan önnur eru hreinlega hálfdulin, t.d. Bratz dúkkur sem íklæddar mínípilsum og ríðuhælum eyða öllum sínum stundum í vangaveltur um verslunarferðir og strákahjal. Mikil aukning sjálfsmorða og átraskanna ætti að vera vísbending um yfirvofandi vandræði.

Við verðum hreinlega að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem þessir umhverfisþættir hafa á ímynd barna og unglinga. Hvort eð eru fáklæddar ungmeyjar í auglýsingum, vart-klæddar ungmeyjar í tónlistarmyndböndum eða Litli Jón að kyrja "Pop yo pussy on the pole do yo thang baby...to the sweat drop down my balls..."

Haukurinn er ánægður að vera ekki að ala upp stúlku....