fimmtudagur, janúar 29, 2004

Búmmsjakalaka!

Haukurinn er kátur þessa dagana, kátur sem slátur. Erfiðu próflokafríi er að ljúka, Haukurinn stóðst öll sín próf og senn fer að vora.

Haukurinn hafði gaman af því að fá félaga sína í heimsókn á dögunum. Jón og Hauksteinn gerðu sér að góðu helgardvöl á sófa Hauksins og var tekið á því. Haukurinn og félagar hreinsuðu tvo kassa af öli á þrem dögum og höfðu gaman af. Farið var í teiti á föstudagskveldi til Kanínubóndans og frúar hans, þar sem saman voru komin Skraddaraneminn og Landsbyggðarböllurinn, og varð úr heljarinnar veisla. Að veislu lokinni var haldið niður á hina rómuðu Jómfrú Ane götu og þar voru veisluhöld framhaldin. Þar rambaði fylkingin á þá félaga Kristján og Friðgeir, og voru þeir í heljar góðum 'fílíng'. Menn sötruðu, börðu af sér athygli 'argra' Dana og Stjáni sá kvenpeningnum fyrir skemmtun með því að rífa sig úr að ofan. Sem sagt venjulegt föstudagskveld í danaveldi.

Laugardagurinn byrjaði og endaði nokkurn veginn á sömu lund. Farið var í bæinn rétt eftir hádegi að spísa Kebab og leita að kanínupeysu handa norðlenskri fegurðardís. Leitin bar annars engan árángur. Þegar tók að rökkva fóru menn í veislugírinn og sötruðu sitt eitur með bestu lyst. Þegar allt áfengi var þurrausið í íbúðinni var haldið í leit að öldurhúsi til þess að sötra einn í viðbót. Þökk sé styrkjum frá íslenskum yfirvöldum urðu þeir öllu mun fleiri. Þegar á þriðja öl á öldurhúsinu Gíraffanum, gjörði Silent Bob viðkomu og stofnaði næstum til ryskinga við slompaða Dani. Eftir viðræður við félaga danans og dyraverði var öllu slíku afstýrt. Að bjórum loknum var haldið til brosandi múslimans að gæða sér á austurlenskum veitingum á leið heim. Þar urðu Íslenskir víkingar reiðir yfir ummælum nálægra dana að þeir töluðu líkt og drukknir Svíar, og var þeim því boðið til karlmannlegra leika fyrir utan. Enginn daninn hafði dug né þor til þess arna, en einn hóf að hringja út varalið í sífellu og var hann því róaður niður og héldu víkingarnir að lokum heim á leið með heiður sinn óskaddaðan.

Menn náðu að leggja sig í góða þrjá og hálfan tíma þar til að brottför kom og voru þeir félagar kvaddir í hurðinni á leiðinni í strætisvagn. Haukurinn hafði gaman af en var frekar þreyttur að lokinni heimsókn þessari.

Haukurinn hefur talað!