laugardagur, desember 04, 2004

Jóladagatal Hauksins

4. desember

Haukurinn byrjaði daginn í dag á því að halda galvaskur niður í miðbæ til jólagjafakaupa. Bærinn iðaði af lífi, verslun og jólastemmingu. Vandinn er aðeins sá að Haukurinn var hvorki að kaupa lífið, verslunina né jólastemminguna. Skapið fór æ versnandi og eftir rúman klukkutíma hafði Haukurinn fengið nóg – hreinlega allt fór í taugar hans. Gamli lírukassaspilarinn sem spilaði sama lagið í klukkutíma í senn; smekkfullu verslanirnar með kaupóðu mannmergðinni og veðrið, sem virtist ekki geta ákveðið hvort það væri haust eða vetur.

Hauknum var farið að líða eins og grátbólgnu smábarni í tapað-fundið deildinni í Kringlunni á Þorláksmessu. En viti menn, ektakvinnan tók stjórnina og rembdist eins og ljóshærð rjúpa við staur að róa Haukinn niður – sem á endanum tókst.

Einnig hjálpaði það Hauknum að Helgarfeðurnir hittu á hann með börnin í kerrum. Nýbúinn og Bóndinn sómuðu sig vel með heimasæturnar í vígalegum vögnum á gangi í miðbænum. Haukurinn vill gera lesendum það ljóst að kerlur þeirra hafa eigi yfirgefið, heldur voru þær mjög uppteknar við nám og því vant við látnar. Erfitt var fyrir Haukinn að stara í blá augu og rósrauðar kinnar dætranna og halda skapvonskunni gangandi og því batnaði skapið óðum.

Meðferðarkona sagði Hauknum einhverju sinni, að maður fengi fyrst aftur jólaskapið þegar maður eignaðist afkvæmi – maður endurlifði töfra jólanna í gegnum gleði barnanna. Haukurinn veit eigi hvort það er satt, en hitt veit hann að þessu sinni endurvakti það aftur tiltrú hans á mannkyninu – allvega um stund.
Haukurinn hefur talað!

föstudagur, desember 03, 2004

Jóladagatal Hauksins

3. desember

Flöskudagur kallar en Haukurinn hlýðir kallinu eigi. Karate æfing hefst eftir fjóra tíma og hyggst Haukurinn svitna, lemja og sparka hátíðarskapið í gang. Eftir heilan dag fyrir framan skræðuna Statsvitenskap eftir hinn margrómaða norska fræðimann Øyvind Østerud á Haukurinn skilið að slaka eilítið á.
Jólabæklingaflóðið ætlar engan enda að taka og fyllist pappírsgámurinn óðum. Verslanir keppast við að fá neytendur út í búðir til þess að nálgast allan varninginn sem á að innihalda samansoðinn jóla- og gleðiandann. Hauknum er oft spurn þegar hann les bæklingana, því að hann sér eigi samhengið milli m.a. stafrænna myndavéla, veiðihnífa eða sportúra og hins sanna jólaanda. Hvað um það...örvæntingar- og stressfnykurinn liggur eins og mara yfir borginni hér við álana.....jólin stefna hraðbyri í átt að hinum almenna manni.....
Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, desember 02, 2004

Jóladagatal Hauksins

2. desember

Haukurinn er að ná sér aftur, en nú liggur konan sjúk heima. Haukurinn heldur til funda með hópnum góða eftir dágóða fjarveru og kemst að því að margt hefur breyst síðustu dægur. Verkefnið hefur tekið enn eina kúvendinguna og er fólk því farið að örvænta eilítið. Hin ólétta í hópnum hyggur á að eiga jólabarn og var því tekið með gleði. Fátt skemmtilegra og jólalegra en grænir sloppar og deyfilyf.
Haukurinn hefur talað!

miðvikudagur, desember 01, 2004

Jóladagatal Hauksins

Haukurinn hefur ákveðið að auka enn meir á jólastemmingu lesenda með því að halda til haga jóladagatali fram að jólum. Líkt og þegar opnað er dagatal frá Lionsmönnum mun Haukurinn reyna að veita lesendum sínum einskonar rafrænann, vefritaðann súkkulaðimola hlaðinn jólaanda á degi hverjum.
1. desember
Haukurinn er haldinn uppseljupest. Jólaandinn er í lágmarki enn sem komið er. Það að faðma postulínsaltarið vekur engan veginn upp sælar minningar um malt og appelsín, furunálailm eða vitringa.
Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Sykur, sykur, úúú hunang, hunang

Haukurinn er nýkominn heim úr stuttri helgarferð til Óðinsvéa. Eins og svo oft áður þá þótti best að velja lestarkerfið til ferðarinnar, þar sem það er áreiðanlegt, þægilegt og síðast en ekki síst ódýrt – sérstaklega þegar maður á eigi bílhræ til ferðarinnar. Lestarferðin sjálf var eins og oftast áður, þ.e. Haukurinn sat og last námsefni sitt og hafði gaman af. Það sem hinsvegar var öðruvísi við þessa ferð í samanburði við aðrar ferðir sem Haukurinn hefur farið innan Danmerkur, var það að helming ferðarinnar til Óðinsvéa sat við hlið Hauksins ung móðir með tvö börn. Það í sjálfu sér er eigi þess vert að minnast á það, heldur það að það fyrsta sem unga móðirin gjörði við innkomu var að rífa úr farteskinu tvo úttroðna poka af sælgæti og troða því í börnin – eða þau í sig sjálf ef rétt skal vera rétt. Þessu rúma kílógrammi af sykri skoluðu börnin svo samviskusamlega niður með velsykruðum gosdrykkjum.

Umskiptin sem þetta sykurmagn olli hjá börnunum voru slík að Hauknum varð um og ó. Stúlkan, sem líklegast var á þriðja ári, hoppaði, skríkti og lét öllum illum látum meðan bróðir hennar, líklega sjö vetra, settist niður með tölvuspil. Það sem Hauknum fannst ennþá merkilegra var sú magnaða staðreynd að eftir allt þetta reyndi móðirin að svæfa stúlkubarnið – upppumpað af sykri og orku. Hvað manneskjan var að hugsa vita aðeins æðri máttarvöld, en það hlýtur flestum að vera orðið ljóst eftir ótal samfélagsátök að sykur og börn blandast illa. Haukurinn veit það með sjálfan sig að eitt súkkulaðistykki getur haldið honum, nánast fullorðnum manni, gangandi tímunum saman.
Þess ber að geta að ofannefnd móðir var líklegast af kynslóð þeirri er kom á undan kynslóð Hauksins, og er sú kynslóð þekkt fyrir slæleg vinnubrögð.
Haukurinn hefur talað.