mánudagur, maí 10, 2004

Brúðkaup Muriels!

Haukurinn er kominn með slétt nóg af brúðkaupsfansi. Danir halda varla vatni yfir komandi hjónavígslu prins Friðriks og hans heitelskuðu tasman/ástralísku brúðar Maríu. Allir tilboðsbæklingar eru við það að springa á limminu af tilboðum á freyðivíni, Anton Berg sælgæti og jarðarberjum - Haukurinn sá einnig hjartasteikur á tilboði í bæklingi frá Ofur Best (hjartasteikur heita nota bene hjartasteikur því að vinalegi slátrarinn hefur tekið svínalund og troðið henni inn í nautalund þannig að hún líti eilítið út eins og hjarta þegar lundirnar er svo skornar í sneiðar). Hitt elementið sem á að ýta við kaupendum eru endalaus tilboð á vörum frá Tasmaníu og Ástralíu. Haukurinn er viss um það að einhvers staðar í Evrópu sé einmana prins að leita sér að brúði. Er ekki hægt að safna saman í bækling myndum og ævisögum nokkurra íslenskra fljóða og reyna að leiða þær undir hinn einmana prins? Væri það ekki heljarinnar hugmynd? Brúðkaupið myndi fá heimsathygli og ef að íslensk yfirvöld spiluðu rétt úr sínum spilum væri hægt að selja heilu skemmurnar af íslenskum vörum. Haukurinn sér fyrirsagnirnar fyrir sér "Prins Hobfenfoff af Laninginstein mun giftast heitkonu sinni Jónu Jónsdóttur komandi föstudag, sökum þess verða lambakótilettur, skyr og tópas á tilboði í verslunum Bónus um víða veröld!".

Helg helgi

Haukurinn og fjelagar tóku vel á því síðustu helgi enda enn að undirbúa lifrina fyrir komu Landsbyggðarballarins eftir rúma viku. Föstudaginn fóru Haukurinn og frú í kaffiboð á Garð. Kaffiboð þetta umverptist í grillteiti eftir að farið hafði verið í sólböð og fólk komið með nokkur prómill í blóðið. Eftir því sem leið á kvöldið þá jókst prómill innihaldið og um tvöleytið þegar Haukurinn og frú ákváðu að tygja sig heim á leið voru allir nema heimasætan vel við skál. Haukurinn og frú fengu að láni hjólfáka tvo og riðu heimleiðis. Þökk sé ótrúlegum leikhæfileikum beggja voru ferðalangarnir látnir vera af lögum og reglu Álaborgar.

Grill að vori?

Laugardagurinn var þungur í upphafi, þar eð fólk fór að finna verðlaun líkama síns fyrir góða hegðun kvöldið áður. Þar sem heimilisfólk Helgolandsgade hafði fengið hjólfáka að léni var þeim skylt að skila þeim aftur daginn eftir til réttmætra eigenda. Sú þrautin reyndist þyngri því heimilisfólkið ekki í besta standi en staðið var við orð sín og hjólfákunum skilað rétt eftir hádegi en einhverju fyrir kaffi. Þar sem stefna átti á vorgrill íslendingafjelagsins hér í borg var fólk uppáklætt en samt sem áður eilítið gegnsætt. Eftir að heimasætunni á Garði hafði verið komið fyrir í hendur vinalegs nágranna sem var á leið með hóp grislinga á barnapartinn af vorgrillinu settust dreggjar kvöldsins áður út í sólina og reyndu að líta út eins og heilbrigt fólk. Um sex leytið var síðan haldið á grillið. Grillið sjálft er eigi í frásögur færandi að öðru leyti en því að Haukurinn át ágætis grillmat og horfði á Liverpool sigra drengina frá Birmingham 0-3 yfir matnum. EFtir grill tóku Bóndinn á Garði og Haukurinn heimasætuna heim og skyldi kvennpening sinn eftir til þess að skemmta sér yfir kjaftaskellum og tónlist. Um miðnætti snéru 2/3 hlutar kvenna heim aftur en þær höfðu skilið Grasekkjuna eftir við skemmtanahald.

Fyrir austan sól og sunnan mána

Sunnudagurinn markaði komu sína með bongó blíðu, heiðskýrt, blær og glampandi sól. Haukurinn hafði látið heimanámið sitja á hakanum og því frekar sárt að tipla á lyklaborð þegar öll blokkin er í sólbaði í garðinum fyrir utan. Skötuhjúin ákváðu því að demba sér í bækurnar til þrjú og síðan ætluðu þau að skreppa út að hjóla. Viti menn! Sólin skein ennþá klukkan þrjú og því tilvalið að boða sig í kaffi á Garð. Haukurinn veðjaði við spúsu sína að þegar þangað væri komið sæti allt heimilisfólk inni við með dregið fyrir í felum fyrir veðrinu. Til þess að gera langa sögu styttri, þá hafði Haukurinn rétt fyrir sér. Grasekkjan lá óvinnufær á sófanum ásamt bóndanum á Garði og horfðu þau föl á bílaleik Skómakarans. Bóndakonan á Garði sat fyrir framan tölvuskjá og sökkti sér í formúlur ýmiskonar. Hauknum leist ekki á blikuna og dreif alla hersinguna út í veðrið og eftir hálftíma þá var kvennpeningurinn farinn að sóla sig á teppi og Bóndinn farinn að læra á bekk - úti í sólinni. Hauknum fannst vel af sér verki staðið og bakaði sig í góðum félagsskap.

Haukurinn hefur talað!