sunnudagur, júní 06, 2004

"Sexí, sexí, sexí, sex...."
Sexý. Greifarnir, Í ljósaskiptum, 1997


Haukurinn hefur ákveðið að útskýra ástæðu þess að hann vitnar í Greifana í fyrirsögn þessa pósts. Þannig er mál með vexti að bæði hefur þetta umrædda lag og talan sex gert Hauknum miklum skráveifu síðustu dægur. Fyrsta og eina skiptið sem Haukurinn varð fyrir þeirri hörmulegu lífsreynslu að heyra þennan ófögnuð af lagi var nóg til þess að brenna það á heilabörk Hauksins, og því hyggur Haukurinn á róttæka aðgerð til þess að losna við ófétið úr huga sínum. Þannig er nefnilega mál með vexti að Haukurinn var staddur í bíl á leið austur á land, og sem farþegi í aftursæti hafði hann enga umsjón með tónlistarvali. Þar sem að einnig voru með í för frænkur Konunnar var því eigi tækt að kvarta yfir því sem sett var í víðómtækið. Haukurinn sat því rólegur og kurteis í tæpa tíu tíma með safndisk Greifanna glymjandi í eyrum. Síðan þá brettist einatt upp á hægra munnvik og hægri augnabrún Hauksins þegar minnst er á Greifana og hann tekur að líkjast Illum Lækni.

Ástæða þess að Haukurinn hefur ákveðið að gera tölustafinn '6' að umræðuefni þessa pistils er sú að síðustu viku hefur tölustafurinn verið Hauknum þungur baggi.

Neanderthalisíþrótt aldarinnar

Haukurinn fór síðasta laugardag suður til Árósa. Þar hafði verið skipulagður knattleikur af áströlsku tagi og Haukurinn verið boðaður til leiks. Haukurinn mætti glaður í bragði og skemmti sér konunglega í klukkutíma bílferð suðureftir. Þegar komið var að leikvellinum varð leikmönnum Álaborgar Aflsins ljóst að þeir væru eilítið færri en mótherjarnir. Haukurinn og félagar voru 13 talsins á meðan leikmenn Árósa töldu rúma tvo tugi. Augljóst var að nú yrðu góð ráð dýr. Því var brugðið á það ráð að verða sér út um málaliða þar eð fréttst hafði að einmana Ástrala sem spilað hefði í næstefstu deild í heimalandinu. Þrátt fyrir þennan stórgóða leikmann var eigi hægt um heimatökin því að eftir því sem leið á leika féllu liðsmenn Álaborgar úr leik hver eftir annann. Þegar verst var urðu mótherjarnir að setja einn leikmann útaf til þess að jafnt væri í liðum. Til þess að gjöra langa sögu stutta þá töpuðu Aflsmenn frá Álaborg með sex mörkum, sem þó var góður árángur ef haft er í huga að liðið hafði eigi möguleika á því að nota varamenn til innáskiptinga. Haukurinn átti ágætan leik, sinn seinni á stuttum ferli, og spilaði allan leikinn. Þegar menn fóru svo að rýna í leikskýrslur kom í ljós að tímaverðir höfðu bætt við 5 mínútum við hvern fjögurra leikhluta leiksins og því leikurinn alltof langur. Þrátt fyrir þessi mistök voru menn ánægðir á heimleiðinni og sáttir við leikinn þegar á heildina var litið. Eigi stærra tap, þegar tveir menn fóru út af með snúinn ökkla og einn með vægan heilahristing, var eftir allt góður árángur.

Þjóðarstoltið

Stuttu eftir að Haukurinn og félagar höfðu lokið leikum bárust fregnir af leik Englendinga og strákanna okkar frá Íslandi. Þegar Haukurinn heyrði að unglingsgamalmennið Roonaldo hefði skorað tvívegis og Lamparður einu sinni í mark Íslendinga og að Heiðar okkar Helguson hefði aðeins náð að pota boltanum einu sinni yfir marklínu Engilsaxanna var augljóst að fokið væri í flest skjól. Þegar heim var komið var staðan orðin mun verri. Englendingum hafði tekist að bæta við þremur mörkum og því staðan nú orðin 6 mörk englendinga gegn einu. Dönunum fannst þetta mikið grín og mikið gaman, en slíkt hið sama var ekki hægt að segja um Haukinn. Enn og aftur hafði '6' borið sigur úr býtum!

6. Júní - Hundadagurinn

Síðasta sunnudag var haldið upp á sextíu ára afmæli innrásar bandamanna á strandir normandíhéraðs í Frakklandi. Um var að ræða einhverja stærstu hernaðaraðgerð sem um getur í heimssögunni og augljóslega gerði hún eitthvað gagn þar sem Haukurinn er ekki að rita þessi orð á þýsku. Haukurinn hefur velt því fyrir sér hvort að ekki væri góð hugmynd að senda þá sem lifðu þessa hólmgöngu af til Írak. Engum sögum fer af misnotkun fanga í Þýskalandi eftir að bandamenn höfðu sigrað og í þokkabót náður þessir öldnu heiðursmenn að lifa af sex ár af stríði. Sem stendur gengur bandamönnum ekkert að ráða niðurlögum írakskra uppreisnarmanna og því ágætis hugmynd að senda þaulreynda hermenn seinni heimstyrjarldarinnar til Persaflóa. Það er allavegna nokkuð ljóst að þeim gengi eigi verr en þessum helgarhermönnum sem þar er staddir og virðast ekkert annað hafa fyrir stafni en að misnota araba.

Rögnvaldur Rekan

Haukurinn ákvað að eyða eilitlum tíma í að pára nokkur orð um sigurvegara hinnar köldu styrjaldar, Rögnvalds Rekan. Rekan þessum hafði, að loknum farsælum ferli sem kúreki á kvikmyndatjaldinu í Hollívúdd, tekist að verða kosinn til embættis sem forseti BNA. Rögnvaldur hræddi marga þegar hann fór að blanda saman kvikmyndalógík og alþjóðastjórnmálum í ræðum sínum, en tókst samt ávallt að halda sínum vinsældum. Hann átti margt sameiginlegt með núverandi forseta BNA, hvorugir eru miklir gáfumenn; báðir fengu mikla aðstoð frá kristnum hægri-öfgamönnum til þess að ná kosningu; báðir virðast hafa haft tvívíða heimsmynd (vondir karlar vs. góðir karlar) og báðir hafa þeir lent í vandræðum vegna stríðsreksturs (Rekan vegna Grenada og Georg Runni sökum Íraksstríðsins). Hvort sem Rögnvaldur fór eftir skipunum dávalds konu sinnar, Nansí, eða eftir eigin hyggjuviti er ljóst að sem stjórmálamaður var hann hreinn trúður en sterkur sem sameiningartákn. Jæja Röggi minn, Haukurinn segir "klipp" í síðasta sinn þér til heiðurs.

Haukurinn hefur talað!