föstudagur, júní 25, 2004

Þér eruð veikasti hlekkurinn, farvel!

Einmana í tíma og rúmi

Haukurinn situr senn einn og yfirgefinn ásamt kvinnu sinni í borginni við Limafjörð. Ektaparið á Garði hefur haldið heimleiðis ásamt heimasætunni og hyggur á heilmikinn brúðarkaupsundirbúning. Saumakonan sem situr ein að saumaskap leggur brátt land undir fót og stefnir sömuleiðis til Íslands með stuttri viðkomu í Svíþjóð. Þar mun hún víst safna liði og eigi gráta Björn bónda. Haukurinn er einnig kominn í gang með að skipuleggja heimferð, sem og eitt stykki ræðu og teiti fyrir stegg. Brátt brestur á með brúðkaupi og stærðarinnar þungarokkstónleikum á heimsmælikvarða - Metallica hér kemur Haukurinn.

Knattleiksparadís

Í hið fyrsta sinn síðan Haukurinn var á unglingsaldri hefur hann haft tækifæri á að fylgjast grannt með leikjum á alþjóðlegu stórmóti í knattspyrnu. Haukurinn hefur ekki orðið fyrir vonbrigðum enn sem komið er. Hver stórleikurinn hefur rekið annann og stefnir í æsispennandi lokasprett. Leikur Dana og Svía fékk stórmikla athygli hérlendis þar sem að ljóst var fyrir leik að ef þjóðirnar skyldu jafnar með tvö mörk gegn öðrum tveimur þá yrðu sólbrenndu hveitilengjudrengirnir frá Ítalíu sendir heimleiðis til múttu. Ítalskir fjölmiðlar fóru mikinn fyrir leik og þóttust finna lykt af sammráði af hálfu skandinavanna. Lúígí og Maríó sáu fyrir sér fundi fyrir luktum dyrum í Norðurlandaráðinu þar sem etinn var þurrfiskur og drukkinn mjöður og skipulagt fall hins rómverska veldis. Lok leiksins voru því frekar spaugileg því að hann fór sem fyrir hafði verið spáð og norðurlöndin héldu bæði áfram meðan pastadrengirnir sátu eftir með sólbrennt og sárt ennið.

Í gærkvöldi féllu síðan englendingar í valinn fyrir gölnum og brúnum portúgölum. Haukurinn skilur eigi mikilmennsku brjálæði englendinga, sem virðast telja að þeir séu besta knattspyrnuþjóð heimsins þó svo að þeir hafi aðeins einu sinni unnið heimsmeistaratitilinn. Þetta virkar á Haukinn eins og enski klúbburinn Tottenham. Þeir hafa sömu sögu og enska landsliðið - aldrei unnið neitt en sífellt með mikilmennskubrjálæði. Ætli að þetta leiktímabil boði breytingu?

Germanir voru einnig sendir heim, sem og Spánverjar og....Lettar. Haukurinn er viss um að í næstu keppni mætti strákarnir okkar til leiks og verði landi sínu og þjóð til sóma. Vér getum alveg unnið frakka Frakka með einu marki gegn einu öðru sinni!

P.S. Haukurinn frétti það að íslenskir íþróttafréttamenn séu samir við sitt, þar sem að Arnar Björnsson (betur þekktur sem 'feita gimpið' heima hjá Hauknum) talaði m.a. um að það væri jafnt í Þýskalandi þegar þjóðverjar áttu við tékka. Hvað það átti að fyrirstilla veit aðeins hann einn.

Kjóstu mig og þá mun ég kjósa þig

Haukurinn gerðist á dögunum þjóðrækinn og fór til ræðismanns Íslands í Álaborg til þess að kjósa sér forseta. Ræðismaðurinn hér í borg rekur einnig byggingarfyrirtæki og því varð Haukurinn að leggja á sig eilítið ferðalag til þess að fá að kjósa. Tekin var nær hálftíma strætóferð til lítils iðnaðarbæjar rétt utan Álaborgar til þess að komast á kjörstað - minnti eilítið á iðnaðarhverfi Hafnarfjarðar og jafnlangt frá miðbæ Álaborgar og Kringlan frá Miðbæ í Hafnó. Þar var gengið inn í skrifstofubyggingu og kosið við innritunarborð staðarins. Lítið fór fyrir leynd og þægindum og þessi lífsreynsla öll hin skrítnasta. Enginn á staðnum kunni íslensku né gat leiðbeint þeim í hópnum sem höfðu spurningar og enginn virtist vita hvert skildi senda atkvæðin þegar öllu var á botninn hvolft. Hringt var í sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn en þar var fátt um svör. Haukurinn taldi fyrir víst að auðveldast væri að koma öllum utankjörstaðaratkvæðunum til sendiráðsins í viðkomandi landi og það gæti síðan sent öll atkvæðin heim í diplómatapósti og allt væri öruggt. En viti menn annað kom á daginn! Haukurinn vonar að atkvæði hans komist til skila og verði talið, því að eins og allir vita þá skipta öll atkvæði máli því að þau telja þegar saman eru komin. Lítil þúfa velti stóru hlassi og telur Haukurinn sig hafa möguleika á því að vera þessi þúfa!

Haukurinn hefur talað!