fimmtudagur, janúar 22, 2004

Götótt kvíga!

Haukurinn skammast sín. Haukurinn ætlaði að vera löngu farinn að pikka inn nokkrar línur fyrir lesendur sína, en hefur eigi gjört svo. Haukurinn er vondur við lesendurna. Slæmi Haukurinn.

Haukurinn er kominn í vetrarfrí. Hann lauk prófum nítjánda janúar og hefur því verið að slappa af í nokkra daga. Haukurinn þurfti á smá afslöppun að halda eftir erfitt jólafrí. Annars finnst Hauknum fyrirkomulag dananna frekar skrítið, þar eð þeir læra í gegnum jólin og taka svo próf í byrjun nýs árs. Þetta er algerlega á skjön við það sem Haukurinn er vanur. Íslenska leiðin virkar rökréttari, maður lærir eins og brjálaður fram að jólaprófum (sem nota bene eru fyrir jól), slappar af um jólin og tekst svo á við nýja önn í byrjun nýs árs. Frekar rökrétt, ekki satt?

Haukurinn náði að koma ritgerð sinni til skila fyrir frest þann sem settur hafði verið fyrir innlögn. Haukurinn skrifaði um títtnefndann Jean Baudrillard og meistaraverk hans "Simulacra and Simulations", síðan tengdi hann allt heila klabbið við Matrix myndirnar. Hljómar spennandi ekki satt??

Haukurinn fór í gærkveld á Nemendahúsið, keypti sér tvo Carlsberg Dark og naut stemmingarinnar ásamt Matreiðslumannsnemanum og Við/rekstrarfræðingnum. Seinna um kvöldið hittu Haukurinn og frú svo fyrir fleiri íslenska námsmenn og fylgdu þeim á örlítið öldurhúsarölt. Ásamt Kristjáni og Evu, voru þar fyrir Fritz og Kristinurnar tvær (sem reyndar eru norskar). Haukurinn lét sér nægja að fylgjast með úr fjarska og sötra einn öl til og hélt síðan heim á leið ásamt spúsu sinni um eitt leytið.

Haukurinn hefur talað!