þriðjudagur, apríl 06, 2004

Það er að verða heitt hérna inni! (It's getting hot in herre!)

Verkefnaskil

Haukurinn hafði það að klára verkefni það er hann minntist á í síðasta pósti. Þó svo að textinn hafi verið skrifaður þýðir þó ekki að mikið hafi verið í hann varið. Hauknum tókst nefnilega að ná sér í vígalegt kvef í miðri viku og var því úr leik lærdómslega heila tvo daga. Eftir að hafa sökkt sér í vinnu á þriðjudegi fann Haukurinn að eigi var allt með felldu þegar degi fór að halla. Haukurinn gróf því upp hátæknilegann munnhitamæli sem honum hafði áskotnast fyrir nokkrum árum og tók á sér hitann. Í ljós kom að Haukurinn var með tæplega 39 gráðu hita og því illt í efni. Haukurinn eyddi því þriðjudagskveldinu skjálfandi undir tveimur sængum og röflaði óráðslega. Ástæður veikindanna geta verið margar en Haukurinn telur líklegast að hann hafi ofmetið veðurfarið í Danmörku og eigi klætt sig eftir veðri. Þannig er mál með vexti að danskir veðurfræðingar höfðu verið vígreifir og spáð allt að 17 stiga hita í síðustu viku. Af því varð eigi en þó var stillt, sólríkt og hitastig um 12 gráður. Haukurinn, líkt og aðrið landar hans, sá fram á það að komið væri sumar og skellti sér því út í svalahurð í sólbað meðan lesnar voru heimildir fyrir prófverkefnið góða. Haukurinn komst samt frekar fljótt að því að þegar maður sofnar í 12 stiga hita þá eru allar líkur á því að kvefpestin komist inn fyrir varnir líkamans. Eftir að hitinn tók að lækka, bæði í líkama Hauksins og utandyra, fór Haukurinn að hella sér aftur út í skrif. Þegar Haukurinn hafði lokið skrifum komst hann að því, að þó svo að verkefnið liti út fyrir að vera heilsteypt þá varð það ekki allskostar gott. En skilafrestur hafði verið settur og því of seint í rassinn gripið.

Þar eð kominn var frjádagur og Haukurinn hafði lokið prófi var ákveðið að fá sér aðeins í aðra tánna og reynt að drekkja sorgum. Bóndinn á Garði var fenginn með í verkið þar eð hann er hvorutveggja vænn í glasi og hafði einmitt einnig lokið prófi sama dag. Þrátt fyrir miklar væntingar varð aðeins úr hálfgert kojufyllerí en sem slíkt var það samt hið besta. Haukurinn hélt heim á leið um miðnætti og hélt áfram að reyna að losna við kvefpest.

Graseklar

Laugardaginn fóru allar kerlur hópsins í hópferð út á land og leigðu til þess bifreið. Bifreiðin var nota bene leigð á bílaleigu er heitir 'Rent a Wreck' eða Leigðu Bikkju og því bifreiðin í slakari kantinum. Úr varð heljar ævintýraferð og er að finna stutta ferðasögu á vefsíðu Skraddaranemans og því vísar Haukurinn áhugasömum þangað er óskað er frekari upplýsinga. Þar sem kerlulaust var í bæ þá ákváðu heljarmennin tvö að gera gott úr deginum. Bóndinn á Garði hafði tvennt barna með í för þar eð hann hafði verið gerður að gæslumanni barna þann daginn. Hittust menn í bænum um miðjan dag og fengu sér flatböku hjá múslimanum Sam. Þaðan var haldið heim á Garð og þar setst niður og tekið að leysa heimsvandann. Þegar nær dróg heimkomu kerlanna var tappinn tekinn úr ölinu og alvarlega tekið á heimsvandanum. Stuttu síðar kom kvenfólkið heim tóku að týna til glingur það er keypt hafði verið. Hauknum brá við þegar kvenpeningurinn tók að nefna tölur og tók það nokkurn tíma fyrir hann að ná sér niður eftir það. Úr varð hið vænlegasta samét og höfðu allir gaman af.

Nýtt strætókerfi

Sunnudagurinn tók við með breyttu strætókerfi og rigningarveðri. Enn er erfitt að meta hvort að kerfið nýja er betra en það sem Haukurinn sér af því í svipan lofar eigi góðu. Enginn strætisvagn keyrir nú Haukinn beint á Garð og hætta allir strætisvagnar að ganga upp úr ellefu í staðinn fyrir miðnætti eftir gamla kerfinu. Haukurinn er haldinn fortíðarþrá og langar í bifreið - en samt ekki.

Páskar

Senn styttist í páska og hefur Haukurinn jafnvel í hyggju að skreppa niður að landamærum í verslunarleiðangur. Þar gæti hann allt eins hugsað sér að dveja í nokkra daga áður en haldið yrði aftur heim á leið. Frekari fréttir verða að bíða betri tíma og því biður Haukurinn lesendur vel að lifa.

Haukurinn hefur talað!