fimmtudagur, mars 18, 2004

Samloka með Vegemite!

Haukurinn situr nú með svart og sykurlaust espresso kaffi fyrir framan sig og hyggst bösta rímur. Þar eð langt er liðið síðan Haukurinn hefur uppfært síðu þessa þá er kominn tími til að súpa á skáldamiðinum og láta hugann reika eilítið. Margt hefur drifið á daga Hauksins síðan síðast var párað og því kominn tími til að upplýsa lesendur um líf guðs útvalda kjarna.

Kristmundur Kvíti var hér gestur ásamt fríðu föruneyti og var það vænt og vel grænt. Gisti hann ásamt vífi, barni og buru í hobbittaholu Eyjólfs bónda á Vorstöðum. Þar var kátt og hlegið dátt þó svo vel mætti merkja eilitla kofaveiki undir lok sambýlisins. Haukurinn kannast við slíkt þar sem hann bjó hjá téðum bónda og spúsu hans fyrstu dagana eftir að komið var til Álaborgar. Á þeim tíma voru "aðeins" 6 íbúar í holunni en þeir voru einum fleiri í síðustu viku. En í heildina má segja að heimsóknin hafi verið sú kræsilegasta, farnar voru mýmargar ferðir í gufuklefa þann er bóndinn hefur upp á að bjóða sem og í ballskák, þar sem Haukurinn fór hreinlega á kostum með því að ná einatt að etja kappi við menn er voru einbeittir í tilraunum sínum við það að setja niður svörtu kúluna númer átta. Haukurinn bar því nánast ávallt sigur úr býtum þó svo að um hafi verið að ræða ofurlítið súran sigur. Skötuhjúin af landi elds og ísa (onei - eigi er hér átt við Ísaland) voru kát og glöð og virðast hlakka mikið til flutninga sinna hingað. Mikið bar á því að karlarnir reyndu að verða sér út um ferðaleyfi en svo varð eigi úr því að nokkur skiptin urðu karlar búrkonur og sátu með börnin heima. Þrátt fyrir barnapössun og umhirðu ýmiskonar þá létu menn það eigi vanta að dreypa á öli úr krús og var slíkt gert við flest tilefni, hvort eð var á Írska húsinu, Frjádagsbar, Húsi stúdentanna eða hreinlega holu bóndans á Stúdentagarði. Sem sagt kátt í höllinni.

Haukurinn hefur nú hafið rekstur á póstþjónustu og hefur Skari skrípó þegar nýtt sér hana. Haukurinn hvetur fólk til þess að ráðfæra sig við Skara ef það hefur í hyggju að nýta sér bréfadúfur Hauksins.

Haukurinn hefur einnig hafið að stunda afbrigði af rúgbí sem kennt er við Ástralíu, land kengúra og bjúgverpla. Eyjólfur bóndi dróg Haukinn með sér á æfingu og verður að viðurkennast að Haukurinn er 'húkkaður'. Sjaldan hefur Haukurinn lent í hópíþrótt þar sem menn eru jafn viðkunnalegir og léttir í lundu, en jafnframt harðir í horn að taka. Hauknum var tjáð að eigi yrðu spilaðir leikir á æfingum þar eð mönnum væri einum of hætt við meiðslum sem þá myndu hamla þeim þáttöku í keppnisleikjum. Hauknum brá svolítið í brún en lét til leiðast og skemmti sér konunglega. Kapparnir voru ánægðir með Haukinn og hrósuðu honum fyrir góð spörk og góð grip. Síðar á æfingunni var síðan tekið fram að skipulagður hefði verið leikur við lið frá Englandi, nánar tiltekið London, sem víst innihéldi einhverja þýðverska leiguliða og að allir yrðu að vera tilbúnir og komnir í leikæfingu innan við þrjár vikur. Haukurinn var heldur betur kátur þegar honum var tjáð að vissulega yrði hann einnig að mæta, því að í liðið færu allir sem vettlingi gætu valdið. Haukurinn hyggst birta frekari fréttir af afrekum sínum í áströlskum fótbolta um leið og þær berast.

Í gærkveldi var haldið á hið Írska hús fyrir tilstuðlan meðlima ofangreinds knattleiksliðs til þess að halda upp á dag heilags Patreks. Þar var lifandi írsk tónlist og boðið var upp á væn tilboð á írskum veigum, m.a. á hinum eðla mjöð Guinness sem að þessu sinni hafði verið litaður grænn, eða allavega froðuhattur ölsins. Haukurinn mætti þangað ásamt Heimfaranum, Skraddaranemanum og Eyjólfi bónda. Sest var við gott borð og tekið á í drykkjunni. Vissulega var þröng á þingi en þröngt mega sáttir sitja. Staðurinn bauð upp á taumlausa skemmtun og mikla kátínu og léku téðir tónlistarmenn við hvern sinn fingur - þó svo að þeir hafi dottið úr því að spila hina írsku Pouges yfir í það að spila Við erum heimurinn (We are the world) sem drap örlítið stemminguna. En allt í allt var þetta afskaplega skemmtileg upplifun og ekki laust við það að 1/16 Írinn í okkur afkomendum þræla og þrælahaldara hafi gert vart við sig. Musha ring dum a doo dum a da það er viskuvatn (Whiskey)í krukkunni!

Haukurinn hefur talað!
Haukurinn