mánudagur, apríl 04, 2005

Bærinn minn, bærinn minn og þinn...

Haukurinn kveður sér máls úr horni, sem oft áður, en í þetta sinn í breyttum heimi. Síðan síðast var skrifað hefur Jesú, sonur smiðsins, látið lífið og stigið aftur upp frá dauðum, sem og að hans æðsti talsmaður á jörðu niðri, páfinn í Róm, hefur einnig kvatt jarðneska tilveru. Hvort að það þýðir að hann muni einnig rísa aftur upp frá dauðum skal ósagt látið en hitt er víst að karlinn hékk óneitanlega lengi inni.
Haukurinn hefur því verið að velta því fyrir sér síðustu daga hver næsti æðstistrumpur verði, þ.e. hvort að hann verði svartur, suður-amerískur eða einfaldlega ítalskur. Þess ber að geta að Haukurinn er hvorki sérlega trúaður né kaþólskur, en hefur samt sem áður áhuga á málinu, þó ekki sé nema bara yfirborðslegur áhugi.
Að öllu páfatali slepptu þá er Haukurinn búinn að vera upptekinn þessa helgi við það að hjálpa til við innflutning og íbúðarmálun hjá nýja bóndanum á Garði og hans heimasætum, víkingnum Kristmundi Kvíta, Hallgerði Langbrók og afkvæmi þeirra. Vissulega er eigi um jafn dramatískan flutning að ræða og þegar settst var að í Vínlandi forðum daga og barist um beitarland við Skrælingja, en breyting er það samt sem áður. Með skósíðar hendur, tæmdan bankareikning og blettótt föt eftir málun hefur Haukurinn nýtt afgang helgarinnar í H&A - hvíld og afslöppun fyrir þá sem eigi skilja.
Alvara lífsins lendir svo á Hauknum eins og fljúgandi flygill hér í morgunsárið, þar sem hann lítur spenntur yfir bókaflóðið sem hann þarf að kljást við fyrir morgundaginn. Haukurinn hlakkar til sumars.
Haukurinn hefur talað!