þriðjudagur, mars 06, 2007

Can't you see I'm a fool in so many ways
But to lose all my senses
That is just so typically me
Baby, oh.
"Oops! ...I Did It Again", Britney Jean Spears.
Haukurinn getur ekki lengur orða bundist, þar eð einum of margt hefur farið í taugar hans síðustu dægur og misseri.
Einna stærsta fréttin hérlendis er ekki brúðkaup Alexöndru fyrrverandi konu Jóakims prins - þið vitið...þessi asíska - heldur það uppreisnarástand sem hefur verið á Norðurbrú í Kaupmannahöfn frá því fyrir helgi. Fyrir íslending er vart að skilja málsatvik, en Haukurinn mun reyna sitt besta til að útskýra um hvað málið snýst - í mjög svo stuttu máli.
  • Þannig er mál með vexti að Kaupmannahafnarkommúna gaf árið 1982 ýmiskonar hópum ungmenna leyfi til þess að nýta húsnæði í eigu kommúnunnar til ýmissa starfa og uppákoma.
  • Húsið var þegar orðin stofnun í kommúnunni, enda hafði það verið lengi þekkt sem Hús Fólksins frá því það var fullbyggt 1897. Eftir nokkur eigandaskipti komst húsið svo í eigu kommúnunnar 1978.
  • Ungmennahúsið svokallaða varð einskonar miðstöð fyrir ýmiskonar jaðarmenningu og því mikilvægur hluti lífs ungmenna sem aðhylltust henni.
  • Árið 1996 varð húsið fyrir nokkrum skemmdum vegna eldsvoða, og kom þá í ljós við nánari skoðun að húsið var einnig illa haldið af myglu og rotið að innan. Þegar kommúnan reyndi að ráða bót á málinu varð hún fyrir mótstöðu íbúa hússins, sem nú höfðu eiginlega náð stöðu hústökufólks. Einnig komu upp deilur varðandi leigu, sem hústökufólkið þverneitaði að borga.
  • Árið 1999 ákveður kommúnan að losa sig við húsið og setur það á sölu. Húsið endar svo árið 2001 í höndum kristins safnaðar , sem svo skemmtilega vill til ber nafnið Föðurhúsið. Hinir nýju eigendur hafa síðan þá staðið í stappi við það að losna við fyrri "eigendurna", og að fengnum endanlegum dómsúrskurði í ágúst 2006 hófu tilraunir til að láta bera hústökufólkið út.
  • Blessaðir krakkarnir fóru bara í fýlu og hófu vígbúnað. 16. Desember fóru á annað þúsund stuðningsmenn Ungmennahússins í ólöglega mótmælagöngu sem endaði í allsherjargötustríði, þar sem u.þ.b. 300 voru handteknir.
  • Lögreglan í Kaupmannahöfn lærði greinilega af þessu uppþoti og skipulagði rýmingu hússins í þaula. Frá því um jólaleytið 2006 fór lögreglan um Norðurbrú og tilkynnti borgurum þar hvernig ætti að bregðast við fyrirætlaðri húsrýmingu og mögulegum uppþotum þar eftir.
  • Svo var það að lögreglan réðst til inngöngu eldsnemma að morgni fimmtudagsins síðastliðins. Eins og þeir sjálfir orðuðu það þá gripu þeir heimilismenn glórulausa í bólinu og húsið var rýmt á mettíma. Eftir sem áður þá upphófust mikil uppþot á götum úti, þar sem rúmlega 600 voru handtekin. Niðurrif hússins hófst síðan í gær og er langt komið.
  • Vert er að taka fram að ungmennunum var boðið annað hús til kaups og þau höfðu fengið vilyrði fyrir því frá fjármagnssjóði að greiða kaupverðið að fullu. Kaupverðið var sett í kringum 160 milljónir íslenskra króna, og buðu ungmennin eina danska krónu.

Haukurinn hefur litla þolinmæði fyrir þessu rugli, enda erfitt að skilja eða hafa samúð með einhverjum gjörspilltum og óuppöldum krakkaormum sem leysa vandamál sín með grjótkasti og íkveikjum. Hvergi annars staðar en í Danmörku finnur maður álíka bull og vitleysu. Í landi þar sem allir fá styrk og bætur fyrir allt og ekkert, en heimta samt meira er erfitt að finna til meðaumkunar.

Haukurinn hefur talað!