föstudagur, nóvember 29, 2002

Þreyttur....!

Haukurinn hangir ekki mikið á netinu. Haukurinn kíkir hinsvegar reglulega á blogg félaga sinna. Hauknum fannst skondið það sem hann fann hjá rhamsez.net, nefnilega Random British Movie Titles, en útkoman var þessi: The Cook, The Haukurinn, His Wife And Her Lover, Four Weddings and a Haukurinn , The Full Haukurinn, My Left Haukurinn, The Haukurinn Who Knew Too Much, Dr Haukurinn, ... þetta er komið nóg....

Haukurinn rakst líka á annað sniðugt hjá Mundanum, nefnilega hvaða stríðsæsingamaður maður sé. Þessi útkoma kallaði fram bros hjá Hauknum:




Enginn er betur til þess fallinn að kljást við einræðisherra í Miðausturlöndum.
Hvers vegna?
Jú, þú þekkir þá alla persónulega og bjóst flesta þeirra til.




Taktu "Hvaða stríðsæsingamaður ert þú?" prófið







Haukurinn er annars þreyttur. Meira seinna.

Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Hvaða vitleysa?!?

Haukurinn er reiður. Honum fallast hendur í skaut. Haukurinn sat og átti í samræðum við góðan vin og lagskonu hans. Umræðan snérist um margt en tók að leita á vit kvikra mynda. Haukurinn tjáði téðum einstaklingum að hann hefði aðeins áhuga á að sjá tvær kvikar myndir í þar til gerðu kvikramyndahúsi, nefnilega söguna góðu um hófbitann og hringinn hans (LOTR II) og söguna af leyniþjónustumanninum Jónasi Bónda (James Bond) sem heitir í þetta skipti Deyðu annan dag - sem minnir Haukinn óneitanlega á heiti myndarinnar "Þegar skepnan deyr" því í Jónasi Bónda hljóta skepnur einnig að deyja!
Það sem veldur skapraunum Hauksins voru þær yfirlýsingar parsins að Jónas Bóndi væri eiginlega ekkert spennandi, hann væri frekar leiðinlegur og þreyttur - og því stæði vilji þeirra frekar til þess að sjá myndin um enska galdradrenginn Harald Pott. Við þetta fauk í Haukinn, Haukurinn fór hamförum líkt og fornir bardagamenn og tjáði þessum plebbum að Jónas Bóndi væri ALDREI óspennandi, leiðinlegur eða þreyttur. Haukurinn tjáði þeim aukinheldur að slíkt væri ekki hægt því hér væri ekki aðeins um kvika mynd að ræða, heldur stofnun! Þá komu mótrökin, Jónas kæmist alltaf upp með allt og þetta væri allt svo óraunverulegt! ÓRAUNVERULEGT!!!!

Haukurinn trúði þegar hér var komið við sögu ekki eigin eyrum! Þetta komandi frá pari sem tilbúið var að greiða peninga til þess að sjá kvika mynd um 14 ára strák sem getur flogið og galdrað! Hauknum flaug í huga hin fræknu ummæli útvarpsmannsins Sigurjóns Kjartanssonar, "það er ekki til neitt sem heitir "minn smekkur" það er bara til góður eða slæmur smekkur"! Sjaldan eru sönn orð of oft kveðin!

Haukurinn fylgist með knattspyrnu. Hann horfir á deild meistaranna. Það er góð skemmtun. Eftir að hafa horft á leik Nýjakastala og Innra Mílans komst Haukurinn að þeirri niðurstöðu að ítalskir knattspyrnumenn séu réttdræpir. Hauknum leiðast hrikalega hve suður-evrópumenn eru brögðóttir í knattspyrnu. Hauknum er spurn, ef hann myndi henda sér í gólfið og rúlla fimm hringi með dauðagrettu í andliti eftir að hafa fengið Hagkaupskerru í hælana, hvort að fólk myndi veita honum sömu aðhlynningu og bræðrum hans á knattspyrnuvellinum?!?

Haukurinn hló að fréttunum um "hryðjuverkamanninn" og "pólitíska fangann" Ástþór Magnússon. Ef það væri ekki fyrir hann og Hannes Hólmstein Gissurarson þá væri mjög svo leiðingjarnt að lifa á Íslandi í dag!!!

Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Zimm Zimma Pass Mí Ðe Kís Tú Mæ Bimma....!


Haukurinn situr kátur og hlýðir á meistara Beenie Man (Bauna Manninn). Hann er kátur svartur rímnasmiður sem kveður um tíkur og bifreiðar. Honum líður vel ef hann fær að keyra um á BMW og grípa í þéttholda kvenpening sem kætist ótæpilega við þessa tilburði Baunans. Haukurinn væri vel til í að lifa þessu lífi gleði og nautna - en nei hann þarf víst að fást við raunveruleikann og þjást og þroskast!

Haukurinn er eigi sáttur við þessa skipan mála. Honum var lofað frá byrjun af alls kyns auglýsingum að lífið væri ekkert svakalega erfitt, sjónvarpsþættir kynntu fyrir honum ýmsar manneskjur sem komust auðveldlega á toppinn og höfðu það gott. Líkt og Barði Pittur (Brad Pitt) sagði í Lemjuleikaklúbbnum (Fight Club) þá var okkar kynslóð alin upp og talin trú um það að allir gætu orðið milljónamæringar, kvikmyndastjörnur og rokktónlistarguðir - en yrðu það ekki og væru því grautfúlir.

Haukurinn heyrir lögin í tölvunni skiptast á í spilun, nú leika þeir félagar í Sigur Rós. Þeir eru í miklu uppáhaldi hjá Hauknum, því að í hans huga eru hverjir þeir sem tekst að telja milljónum manna trú um að upptökur af búrhveli að rúnka sér sé tónlist hljóti að vera hetjur. Ennfremur syngja þeir hvorki inná rúnkið á ensku, íslensku eða öðru þekktu tungumáli. Þeir syngja á bullensku! Ef þessir menn eru ekki grínistar aldarinnar þá er Haukurinn eitthvað að miseitthvað!

Haukurinn sá sama þátt og forseti Ísalands um hana Björk okkar. Skemmtilegur þáttur, en það sem sló Haukinn mest var yfirlýsing gömlu drottningarinnar Ella Jóns (Elton John) um kjól Bjarkar á Óskarsverðlaunahátíðinni. Honum fannst kjóllinn, sem var í líki svans, tær snilld og umfjöllun um hann í Bandaríkjunum bera þess skýrt merki að Bandaríkjamenn hafi engann skilning á kaldhæðni. Haukurinn klappar gömlu drottningunni lof í lófa fyrir þessi ummæli.

Haukurinn heyrir nú í sænsku gæðapoppurunum í Kent spila, en hann komst í tæri við þá á ný þegar hann dvaldist í Norðvegi og heyrði lög þeirra spiluð á frumtungunni, sænsku, á NRK P3. Þeir hljóma betur á sænsku en ensku - svona eins og Skímó og Land and Sons - "Vi liver som dom åndra....".

Haukurinn á að sitja við lærdóm en kýs að svíkjast um og skrifa blogg. Í Hauknum blundar nefnilega blogg-bók og ef einhver frá útgáfufyrirtæki er að lesa þetta þá hefur Haukurinn hugmynd að bók um dvöl sína í Norðvegi. "Sofnað á Sunndalsøra" heitir meistaraverkið - hey....ef Beta Blogg getur þetta þá er næsta víst að Haukurinn getur samið miklu mun betri bók, eee satt að segja!

Haukurinn hefur talað!