miðvikudagur, september 19, 2007

Offita er eitt hraðast vaxandi heilbrigðisvandamál í hinum vestræna heimi, og Haukurinn hefur verið að velta fyrir sér þeirri umræðu sem hann hefur rekið augun í bæði í Danmörku sem og heima á Íslandi. Nýverið var birt viðtal við konu hérlendis sem var komin nægilega yfir þá skömm að eiga offeitt barn til þess að senda það á einhverskonar kommúnustyrkt léttingarnámskeið. Þar eð stúlkan hennar skammaðist sín einnig voru ekki birtar myndir af henni, heldur aðeins móður hennar að leik með fjölskylduhundinum.

Það sem Haukurinn rak einkum augun í, var sú staðreynd að móðir stúlkunnar var um 150 kíló og þéttholda eftir því, ásamt því að hundurinn var nokkrum sentimetrum frá því að reka þrekinn kviðinn í jörðina þar sem hann kjagaði andstuttur á eftir húsfreyju sinni. Hauknum finnst ákveðinn tvískinnungsháttur fólginn í því senda börnin sín í hreyfingu, íþróttir, megrunarnámskeið, osfrv. þegar maður situr sjálfur og hleður á sig aukakílóunum - einkum þegar það fellur á aðra skattgreiðendur að greiða ákveðin fyrrnefnd námskeið fyrir börnin.

Offita barna er orðið efni sem hefur fengið vaxandi umfjöllun í danskri samfélagsumræðu síðustu misseri. Hérlendis eru menn áfjáðir í að reyna allt til að sporna við þessari hraðvaxandi þróun. Rætt hefur verið að fella niður tolla á ávexti og grænmeti, sem og er ávallt verið að reyna fá dani til þess að eta meira af grófu brauði. Síðastnefnda atriðið kemur Hauknum spánskt fyrir sjónir, enda er fátt annað selt hérlendis en mismunandi útfærslur af harðkjarnabrauðmeti - sumt það gróft að það virkar eins og bakarinn hafi hreinlega límt saman ýmiskonar rúg- og hveitikjarna í brauðhleifsmynd.

Ennfremur eru danir áhyggjufullir yfir fréttum af yngsta einstaklingnum sem farið hefur í magahjáveituaðgerð hérlendis, en hann er 15 ára. Haukurinn er glaður að sjá að Íslendingar gefa dönum ekkert eftir og eiga allavega vinninginn í þessari norðulandakeppni.

Haukurinn hefur litla þolinmæði fyrir offitu - og þá einkum og sér í lagi offitu barna. Ábyrgðin fyrir offitu barna liggur öll hjá foreldrunum. Foreldrarnir eru þeir sem sjá almennt um matarinnkaup og matseld á heimilinu og því er það þeirra verk að halda mataræðinu heilbrigðu. Einnig er það í gegnum uppeldi sem börn eru kynnt fyrir mismunandi lífsmynstrum, þ.e. ef foreldrarnir neyta óheilbrigðs fæðis og hreyfa sig lítið er sterklega líklegt að börnin eigi eftir að temja sér sömu venjur. Hægt er að kvarta yfir tímaleysi, þreytu eða öðru álíka. En ef fólk hefur tíma til þess að hringja og bíða eftir flatböku getur það á sama tíma einnig soðið fisk og kartöflur - hvort ætli sé dýrara?