Fátt annað kemst að í fréttaflutningi hér í Danmörku en stormandi áhlaup eins áhorfandans á Parken á dómara leiksins milli Dana og erkifjendanna frá Svíþjóð. Hreint út sagt allir sem eitthvað tengjast annaðhvort dómgæslu, knattspyrnu, ofbeldi eða áhangendaklúbbum hafa fengið að tjá sig um atvikið. Menn eru hreint út sagt slegnir út af laginu og vita ekkert hvert framhald málsins verður.
Danskir áhorfendur þykja þekktir um víða veröld fyrir rólegt lyndi og glaðlegheit, og því eru danir vægast sagt felmtri slegnir yfir atburðum helgarinnar. Haukurinn tekur þessum fréttum af yfirvegaðri værð og spyr sig fremur hversu slæm öryggisgæslan sé á Parken fyrst þessi sófakartöflukarl náði að kjaga inn á völlinn fram hjá öryggisvörðum - og það í vægast sagt annarlegu ástandi. Umræddur bumbuárásarmaður hefur farið huldu höfði, enda óttast hann um líf sitt og limi í ljósi stigmagnandi reiði meðal knattspyrnuáhugamanna hérlendis. Líkt og við var að búast, þá kennir hann áfengisneyslu um þar eð hann hafi drukkið milli 15-20 bjóra og muni vart eftir árásinni. Núna kemst hann ekki heim til sín að ná í fatnað og vistir þar sem hópar fólks fylgjast grannt með húsi hans.
Oft hefur verið haldið frammi í ákveðnu háði að þessi margrómaða "ligeglad" hegðun dana sé mikilli öldrykkju að þakka. Það er allt gott og blessað en augljóst að ölþjór er tvíeggjað sverð. Ætli uppbyggt þjóðernisstolt gagnvart Svíum, drykkja og gremja yfir leiknum hafi ekki hvert átt sinn þátt í áhlaupinu á dómarann þýðverska?
Spurning hvort að það hefði ekki bara verið ágætt ef einhver hefði hlaupið inná Laugardalsvöll og hótað dómaranum í leik Íslendinga og Langtíburtistana frekar en að sætta sig við jafntefli? Eru ekki til nógu margir massahnakkar frá Selfossi með særða sjálfsmynd og öl í blóðinu til þess að gera skandal?
Haukurinn hefur talað!