mánudagur, september 25, 2006

Eniga – meniga, allir röfla um peninga,
Súkkadí – púkkadí, kaupa meira fínerí,
kaupæði – málæði, er þetta ekki brjálæði.
Eniga Meniga, Ólafur Haukur Símonarson
Haukurinn er ekki hrifinn af málæði, hvað þá kaupæði, en súkkadí-púkkadí hafa sjaldan átt greiða leið upp á pallborð hans.
Haukurinn er dasaður. Eftir blautan ágústmánuð - sem Haukurinn missti reyndar af - þar sem regn og skúrir settu öll met í bleytu hérlendis, hefur september verið með hinu besta móti. Meðalhiti hefur haldið sig rétt yfir tuttugu stigunum og sólin hefur verið hátt og greinilega á lofti.
Haukurinn er að velta því fyrir sér að skrifa Al Gore bréf og spyrja hann hvort að gróðurhúsaáhrifin séu virkilega svo slæm, þ.e. ef hægt væri að halda þeim í þeirri mynd sem þau eru núna þá væri Haukurinn bara hreint út sagt ágætlega kátur.
Veðrið hefur haft mismunandi áhrif á Dani, sumir mótmæla niðurskurði í barnagæslu og aðrir mótmæla því að missa félagsmiðstöðvar. Útlendingar hafa ekki látið veðrið plaga sig og flykkjast til Danmerkur til þess að njóta veðurs, náttúru og dýralífs. Haukurinn fékk aukinheldur senda þessa frétt, sem endanlega fullvissaði hann um skaðsemi þess að fylla bifreiðar af sjónvarpsskjáum og dvd-spilurum.
Haukurinn á ekki bíl - hvað þá sjónvarpsskjá til þess að setja í mælaborðið.
Haukurinn hefur talað!