miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Slá í gegn, slá í gegn,
þú veist ég þrái að slá í gegn.

Slá í gegn, Valgeir Guðjónsson.

Jantelögin eða Jantelögmálin svokölluðu eru sér norrænt fyrirbrigði, sem svo er virðist hafi farið allskostar fram hjá íslensku þjóðinni. Þau voru fest í prent í bók eftir dansk norskan rithöfund á þriðja áratugi síðustu aldar, og soðin niður í maggi-súputening þá segja þau að enginn eigi að hampa sjálfum sér né þykjast betri eða betur gefinn en náunginn – s.s. allir eru jafnir. Á meðan norrænir frændur okkar streða mót samfélagslegum jöfnuði, reynum við Íslendingar allt hvað við getum að skara fram úr – sem við virðumst trúa að samsvari okkar eigin mikilfengleika og örlögum. Við hömpum einstaklingsframtakinu, framúrskarandi árangri og hömpum þeim sem skara fram úr sem hetjum, skiptir þá einu hvort um er að ræða hálærðar skákkempur eða sjálfsskapaða iðnjöfra. Líkt og þessi benti á þá hafa Íslendingar í aldanna rás alið upp í sér landlægan þjóðarrasisma, sem birtist í því að við trúum því einlægt að allt sem við gerum, eigum og trúum sé það besta í allri veröldinni – einkum miðað við höfðatölu svo að við getum allavega fengið fín gröf frá Hagstofunni máli okkar til stuðnings.

Haukurinn velti vöngum yfir því í síðasta pósti hvers vegna hann væri allt í einu orðinn svartur maður á plantekru hvíta mannsins. Honum er nú ljóst að það þjóðrembunni að kenna – við höfum hreinlega sært hið viðkvæma, skandinavíska jafnaðargeð dana með mikilmennskubrjálæði okkar. Ofstækisfull uppkaup íslenskra viðskiptamanna, byggð á einstaklingshugsjónum og gróðahyggju, hafa hreint út sagt stuðað þetta mikla jafnaðarhyggjuþjóðfélag. Frægt er orðið þegar félagsmálaráðherra dana hleypti öllu í bál og brand síðasta haust, þegar hún sagði að ójöfnuður væri ekki af hinu illa. Hún sá ójöfnuðinn sem skapandi drifkraft í þjóðfélaginu, þar sem áherslan ætti ekki að vera sú að mjólka fé af hinum ríku heldur að hjálpa hinum fátæku. Augljóslega fór þetta fyrir brjóstið á hinni tekjujöfnu dönsku þjóð og endaði ráðherrann á að draga ummæli sín til baka, en eftir stendur boðskapurinn sem við þekkjum einum of vel á Íslandi, þ.e. við hömpum þeim sem slá í gegn en hinir verða bara að redda sér sjálfir.

Hérlendis er þetta ekki vel séð, þar eð hér er það talið réttur allra borgara að ríkið tryggi jafnræði. Þó ekki sé verið að tala um algeran tekjujöfnuð, líkt og í Sovétríkjunum forðum, þá er verið að ræða um jöfn tækifæri borgaranna til að uppfylla eigin markmið. Orðið self-realisering er ekki auðþýtt frá dönsku yfir til eldgamla ylhýra, en merkingin er sú að einstaklingurinn geti notið sjálfs síns til fulls eða uppfyllt eigin möguleika. Til þessa verði að tryggja einstaklingnum ákveðin efnisleg gæði svo að hann hafi jafna möguleika á við aðra – sem þar með dragi úr forskoti hinna betur efnuðu, hinna betur tengdu og þeirra sem sitja í efstu þjóðfélagsstéttunum.

En hvað um það, Haukurinn er búinn að fá nóg af þessu endalausa jafnaðarbulli! Hann er Íslendingur, þeir redda málunum, þ.e. ef þau redda sér ekki bara af sjálfu sér. Hann er hvort eð er búinn að meika það!

Haukurinn hefur talað!

P.s. Haukurinn vill koma á farbanni í Vestmannaeyjum. Þetta fólk er endanlega búið að sannfæra Haukinn um að íbúar þar séu afrakstur langtíma innræktunarrannsóknar þýskra nasista. Hvernig er hægt að halda áfram að kjósa dæmda glæpamenn til þingsetu? Voru rúmin ekki nóg? Eða blessuðu klettalistaverkin?

P.p.s. Haukurinn á ekki rætur að rekja til Vestmannaeyja, það eru gróusögur. Ættmenni hans voru aðflutt með þvingunum og hafa ekki ennþá losnað úr átthagafjötrum sínum.
P.p.p.s. Haukurinn er ekki vanur að gera þetta, en hér er alger snilldar sýn á danska tungu í boði norskra frænda vorra.