laugardagur, febrúar 28, 2004

Ísland best í heimi!

Haukurinn er stoltur Íslendingur. Hann er það, þó svo og jafn vel þeim mun meir um þessar mundir, þar eð hann býr sem stendur í mörk dananna. Það að búa erlendis ýtir undir þjóðarstoltið og í fyrsta sinn á stuttri ævi sinni hefur Haukurinn náð skilningi á öllum þeim fjölmörgu ættjarðarljóða og söngva sem hann hefur þurft að læra í gegnum tíðina. Þannig er nefnilega mál með vexti að flest þessara ofurþjóðerniskvæða voru einmitt samin af námsmönnum sem flutt höfðu af landi brott.

Hver kannast ekki við að hafa velt fyrir sér hví þessir menn voru einatt að væla og vola af sífelldum söknuði? Jú, þeir fluttu burt, flestir sökum þess að menntun var af skornum skammti heima fyrir og tækifærin fá. Öldrykkja þeirra og hórlífi virtist eigi ná að drepa algerlega minninguna um gamla landið og á endanum urðu þeir valdur að rómantísku stefnunni sem tröllreið hinum 'menntaða' vestræna heimi á 19. öld. Menn hópuðust saman í íslendingafjelög, stofnuðu sendirit og sömdu sorgarkvæði. Eins og flestir vita þá endaði öll þessi harmþrungna sorg með því að við stóðum uppi í hárinu á danska konungnum og börðumst fyrir því að fá að ráða okkur sjálf. Þar eð það gekk ekki í fyrstu tilraun, biðum við þar til Adolf gamli hafði hertekið dani, fengum stuðning frá könunum (í skiptum fyrir að gefa þeim pláss fyrir hernaðarlega mikilvæg landsvæði) og slitum öllu samstarfi. Skrítið að hugsa til þess að ef Hitler hefði ekki ákveðið að stofna þriðja ríkið þá værum við sennilega enn dönsk nýlenda.

Allavegna, það sem Haukurinn hefur einnig gert sér grein fyrir á síðustu misserum er það, að þegar maður stendur utan við það sem á sér stað á Íslandi þá virkar allt þetta eilífa tuð og streð hálf afkáralegt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru Íslendingar ekki fleiri en rúm þrjú hundruð þúsunda, sem samsvarar rétt rúmlega stærð Árósa hér í danmörku. Að svo lítið land skuli geta staðið á eigin fótum, haldið uppi stjórnkerfi og varast landlægt hungur og almennan aumingjaskap er með öllu ótrúlegt. Þó svo að margt megi betur fara þá er lífið á Íslandi einstaklega ljúft og gott, og mættu lesendur sem staddir eru á 'skerinu' gera sér grein fyrir því fyrr frekar en síðar. Borðið ykkar kókó pöffs, ora baunir og lambakjöt, farið í heitan pott og gangið þið á fjall. Trúið því að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mörk dananna býður kannski upp á massaódýrann bjór, mikið af svínakjöti og múslimapizza-stað á hverju horni en Haukurinn stendur fastur á því að þetta gras sé engann veginn grænna en það sem er ykkar meginn við bæjarlækinn.

Haukurinn hefur talað!

föstudagur, febrúar 27, 2004

Áfram kristsmenn,krossmenn!

Haukurinn einblínir enn og aftur að BNA í pistli sínum. Þannig er mál með vexti að í BNA fer með völd eini 'forseti' banananna sem eigi var kosinn lölega í almennum kosningum. Júníor að nafni hafði nefnilega reynt allt hvað hann gat til þess að ná löglegri kosningu, m.a. með því að gera meirihluta íbúa Flórída (eða þá sem kusu demókrata) að glæpamönnum sem eigi máttu kjósa, með því að hamla fólki frá því að kjósa, fá send utankjörstaðaatkvæði sem tímasett voru eftir að kosningum lauk og fleira í þeim dúr. Þegar allt kom til alls var það svo hæstiréttur BNA, sem m.a. pabbi júníors hafði að mestu skipað, sem setti Júníor í embætti.

Júníor er ágætis gaur þannig séð, hann var í þjóðvarðliði BNA (þó svo enginn hafi séð hann þar), rak hafnaboltalið (sem pabbi átti) og steikti fatlaða í rafmagnsstól sem ríkisstjóri Texas. Júníor hafði í raun voða lítið á bak við sig sem hjálpað gæti í starfi forseta, annað en það að hann réði gamla liðið hans pápa sem ráðgjafa. Allir gömlu karlarnir sem höfðu rétt honum sleikjó, klórað honum bak við eyrað og þurkað burtu horið þegar hann hékk á skrifstofunni með pabba, voru ráðnir til fyrri starfa. Þar eð þeir voru allir góðir vinir innbyrðis þá hefur samstarfið gengið vel og lítið er um efasemdir varðandi aðgerðir þær er þeir skipuleggja. Júníor hafði öfugt við fyrri forseta enga reynslu af neinskonar alþjóðasamstarfi, þ.e. að undanskildum þeim tilvikum þegar hann hafði reynt að steikja erlenda ríkisborgara á texas-grillinu.

Júníor hafði verið voðalega mikill grallari í æsku. Hann drakk áfengi, notaði kókaín og keyrði fullur. Það 'reddaðist' allt þegar hann fann Jesúm og frelsaðist. Þar sem Júníor var nú búinn að hleypa jesúm inn í hjarta sitt ákvað hann að skipuleggja allt sitt líf eftir guðs orði. Biblían varð fyrir vali þar eð hún hefur að geyma hinn algilda sannleik og hið sanna orð guðs - eina vandamálið er það að guð virðist ekkert hafa haft tíma til þess að fara yfir ritgerðina, þar sem hann er alltaf í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. Fyrstu merki þessarar frelsunar sáust opinberlega þegar frambjóðendur repúblikanaflokksins voru spurðir hvaða sögulega persóna hefði haft mest áhrif á líf þeirra og júníor hrópaði upp yfir sig "Jesúm kristur frelsari vor". Augljóst að allir eiga ætt til Adams að telja....

Júníor hóf síðan störf og gekk það vel. Fyrstu tvö ár tímabils síns voru heldur erfið eða allt þar til illa menntaðir arabískir flugmenn flugu inn í háhýsi í Nýju Jórvík. Þá fékk Júníor loksins afsökun til þess að ráðast á vonda karlinn sem pabbi hans hafði reynt að drepa fyrir 10 árum síðan. Pabbi Júníors hafði nefnilega sem yfirmaður leyniþjónustu BNA gert samninga við Saddam Hussein þess efnis að hann réðist á Írani og fengi fyrir pening frá BNA. Þetta gekk allt vel þar til Saddam ákvað að ráðast inn í leppríki BNA og reyndi að stela olíunni þeirra. Hann varð svo rosavondur óvinur að ríkisstjórn BNA lét gera spilastokk sem prýddur var mynd Saddams. Allavegna nú hafði Júníor ástæðu til þess að drepa villutrúarmenn, því að hann sá þetta stríð sem krossför eins og kom fram í viðtali við einn af æðstu yfirmönnum herja BNA - sem m.a. aðhyllist nákvæmlega sömu trú og Júníor. Stríðið vannst og þökk sé spilastokknum þá fannst Saddam.

Núna hefur Júníor haft langan tíma til þess að gera ekkert og því augljóslega farinn að leiðast dauði tíminn. Hann skellti sér því nýverið í sjónvarpið og sagðist ætla að setja ákvæði í stjórnarskrá BNA sem bönnuðu hjónabönd milli annarra en karla og kvenna. Hann sagði ástæðuna m.a. vera þá að hjónabönd væru það sem byggði upp hin miklu BNA og öll hróflun við þeim væri af hinu illa. Hann var þarna að tala um það að leyfa karli og karli að giftast, ekki það að venjulegt fólk geti gift sig í ak-inn lúgu í Las Vegas - það dregur augljóslega ekkert úr áhrifagildi giftingarinnar.

Haukurinn verður að viðurkenna að hann sér ekki alveg hvernig það að fólk sama kyns gifti sig muni verða BNA að falli. Í landi þar sem maður getur keypt sér skambyssu, skothylki og áfengi á sama staðnum getur slíkt ekki skipt miklu máli. Júníor ætti að kíkja aðeins í gengnum guðs orð að nýju, einkum hið nýja testamenti, þar er þar má sjá sanngirni og meðaumkun.

Haukurinn þakkar sýnt traust og hyggst senda demórkrötum inn tilnefningu sína bráðlega. Haukurinn til forseta 2004!

Haukurinn hefur talað!

mánudagur, febrúar 23, 2004

Heitar íslenskar og þykkur hólmavíkurbæjari!

Haukurinn styrkist sí og æ í þeirri sannfæringu sinni að íbúar bandaríkja norður-ameríku séu bavíanar. Flestum er víst kunnugt um þær fregnir er bárust frá BNA að þingmenn ýmissa fylkja þar í landi hefðu sett fram frumvörp þess efnis að breyta nöfnum ýmissa matvæla og rétta er borið væri upp á þeirra heimabæ. Franskar hétu eigi "french fries" heldur "freedom fries", steikt eggjabrauð umverptist frá "french toast" yfir í "liberty toast" og fleira þar fram eftir götunum. Frakkar tóku þessum tíðindum með þeirri rósemd og því yfirlætisfulla yfirbragði sem einkennir þá annars ágætu þjóð. Þó svo að vilji þingmannanna vestanhafs hafi verið einlægur er víst að þessar tillögur þeirra til rótækra breytinga á mataræði innfæddra áttu ekki upp á pallborð hjá almenningi, því að eins og flestir vita þá þrá ameríkanar franskar meira en allt annað matarkyns og lái þeim hver sem vill - kvikindin eru jafn bragðgóð og þau eru fitandi.

Það kom því Hauknum í opna skjöldu þegar hann komst að því að þetta er eigi í fyrsta sinn er þessi kúvending er reynd. Þannig er mál með vexti að þegar fyrri heimsstyrjöldin var í fullum gangi og bræður börðust og að bönum urðust, þá ákváðu yfirvöld BNA að setja yrði lög sem hömluðu njósnir og það að hvetja til uppreisnar gegn ríkinu. Þar sem Þjóðverjar voru þá hinir illu eða "the enemy du-jour", þá hófst mikil herferð með það að markmiði að losna við öll áhrif þýskrar menningar í BNA. Í þessum aðgerðum fólst m.a. að losna við allar þýskar bókmenntir úr hillum bókasafna, banna börnum að læra þýska tungu, banna hinn þýska langhund af götum ýmissa borgar og síðast en ekki síst að endurskíra hamborgarann eilífa "liberty steak" í stað hins þýðverska heitis "hamburger" sem gaf til kynna tengsl hans við Hamburg.

Þar með er augljóst að 'bananar' (íbúar BNA) þurfa að taka ærlega til í eigin ranni. Fullljóst er þó að þeim verður það eigi auðvelt þar sem allir vilja síns böls blindir vera. Hægt væri að breyta hinu fornkveðna 'eins dauði er annars brauð' yfir í 'eins dauði er eigi annars frönsk kartafla' þannig að passaði við heim banananna.

Haukurinn hefur talað!